Fótbolti

Tæpt ár frá rassskellinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronaldo verður í eldlínunni með Madrídingum í kvöld.
Ronaldo verður í eldlínunni með Madrídingum í kvöld. Fréttablaðið/Getty
Real Madrid heimsækir Schalke til Gelsenkirchen í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta í kvöld. Sömu lið mættust á sama stað í sömu umferð keppninnar fyrir innan við ári og þá lék kötturinn sér að músinni.

Real Madrid rassskellti Schalke á þess eigin heimavelli, 6-1, í leik þar sem BBC – Bale, Benzema og Cristiano Ronaldo, skoruðu tvö mörk hver. Flestir búast við tiltölulega auðveldum sigri Real á ný en Toni Kroos, leikmaður Real sem áður spilaði með Bayern, er ekki á sama máli.

„Þetta verður ekki auðvelt. Schalke gengur vel í þýsku 1. deildinni. Þetta er skipulagt lið sem náði jafntefli við Bayern og er með góða vörn. Undir stjórn Roberto di Matteo hefur liðið styrkt varnarleikinn verulega. Svo erum við líka í vandræðum með meiðsli. Takmarkið er engu að síður að komast áfram,“ sagði Toni Kroos.

Hinn leikur kvöldsins í Meistaradeildinni er viðureign FC Basel frá Sviss og Porto frá Portúgal. Í raun dauðafæri fyrir bæði lið að komast í átta liða úrslitin þar sem þau sluppu við að mæta stærri hákörlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×