Fjármálaráðherra ekki boðið í stúku Sigurjón M. Egilsson skrifar 7. febrúar 2015 07:00 Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir kjarasamninga vera ógn við hagsæld þjóðarinnar. „…það sem ógnar helst stöðugleikanum og aukinni hagsæld á Íslandi eru kjarasamningar…“, sagði ráðherrann á Alþingi í umræðu um stöðuna á vinnumarkaði. Ábyrgðin er mikil. Sjálf hagsældin er undir að sögn fjármálaráðherrans. Til að gæta réttlætis er best að láta niðurlag setningarinnar fljóta með: „…það sem ógnar helst stöðugleikanum og aukinni hagsæld á Íslandi eru kjarasamningar sem taka ekki mið af því sem atvinnulífið getur staðið undir.“ Katrín Jakobsdóttir, sem upphóf umræðuna, benti á að Bjarni Benediktsson hefði sagt það hlutverk deilenda á vinnumarkaði að koma sér saman um kjarasamninga. En er það svo? Nei, reynslan er ólygnust í þessu sem svo mörgu öðru. Það heyrir til algjörra undantekninga ef ríkisstjórn hvers tíma kemur ekki að gerð helstu kjarasamninga. Um það eru ótal dæmi og staðreyndir. Katrín Jakobsdóttir sagði við umræðurnar: „…þannig að ég er ekki hissa á því að aðilar vinnumarkaðarins kalli eftir því að stjórnvöld sýni á einhver spil til þess að greiða fyrir kjarasamningum.“ Og Árni Páll Árnason rifjaði upp yfirlýsingar þeirra sem kallast aðilar vinnumarkaðarins, en frá þeim hefur heyrst hörð gagnrýni á ríkisstjórnina. „Fjármálaráðherra verður að horfast í augu við að aðgerðir ríkisstjórnarinnar á síðustu mánuðum og misserum hafa aukið á misskiptingu, skapað aukna óþreyju meðal lágtekjufólks og meðaltekjufólks og þar af leiðandi þrýst upp þörfinni á kauphækkun.“ Árni Páll sagðist sammála Bjarna að kjarasamningar styðji við efnahagslegan stöðugleika, „…en ríkisstjórn ber grundvallarábyrgð á því að tryggja að aðstæður séu með þeim hætti að hægt sé að ná slíkum kjarasamningum.“ Ríkisstjórn Íslands verður ekki leidd í áhorfendastúku í þeim átökum sem eru fram undan. Henni er ætlað að taka þátt í átökunum sjálfum, hún verður á vígvellinum. Hjá því verður ekki komist. Hvaða væntingar sem ráðherrar kunna að hafa um annað. Í allra minni er aðkoma ríkisstjórnarinnar að samningum lækna. Friður komst ekki á einungis vegna þess að samningar tókust um kaup og kjör. Meira þurfti til, vilyrði um fjölbreyttari rekstur heilbrigðisþjónustu og fleira vó þar þungt. Ríkisstjórnin á eftir að stíga inn í hringinn. Orð Bjarna Benediktssonar hafa fallið. Hann er ekki hægt að skilja á annan veg en þann að hagsæld þjóðarinnar byggist á lágum launahækkunum. Seðlabankinn hefur líka talað. Greint frá hversu mikið er til skiptanna. Þeir sem hafa meira hafa náð sér í stærri sneiðar en öðrum eru ætlaðar. Allir þorri launamanna á eftir að semja. Staðan þrengist og í henni verður æ meir horft til ríkisstjórnarinnar. Jafnvel má segja að ríkisstjórnin væri betur sett hefði hún gott útspil á hendi. Til að mynda lækkun vörugjalda, en sú aðgerð verður ekki gerð tvisvar. Mikið ber í milli. Að venju er horft til ríkisstjórnarinnar sem samkvæmt hefð á beina aðkomu að gerð almennra kjarasamninga. Nú reynir á. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sigurjón M. Egilsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir kjarasamninga vera ógn við hagsæld þjóðarinnar. „…það sem ógnar helst stöðugleikanum og aukinni hagsæld á Íslandi eru kjarasamningar…“, sagði ráðherrann á Alþingi í umræðu um stöðuna á vinnumarkaði. Ábyrgðin er mikil. Sjálf hagsældin er undir að sögn fjármálaráðherrans. Til að gæta réttlætis er best að láta niðurlag setningarinnar fljóta með: „…það sem ógnar helst stöðugleikanum og aukinni hagsæld á Íslandi eru kjarasamningar sem taka ekki mið af því sem atvinnulífið getur staðið undir.“ Katrín Jakobsdóttir, sem upphóf umræðuna, benti á að Bjarni Benediktsson hefði sagt það hlutverk deilenda á vinnumarkaði að koma sér saman um kjarasamninga. En er það svo? Nei, reynslan er ólygnust í þessu sem svo mörgu öðru. Það heyrir til algjörra undantekninga ef ríkisstjórn hvers tíma kemur ekki að gerð helstu kjarasamninga. Um það eru ótal dæmi og staðreyndir. Katrín Jakobsdóttir sagði við umræðurnar: „…þannig að ég er ekki hissa á því að aðilar vinnumarkaðarins kalli eftir því að stjórnvöld sýni á einhver spil til þess að greiða fyrir kjarasamningum.“ Og Árni Páll Árnason rifjaði upp yfirlýsingar þeirra sem kallast aðilar vinnumarkaðarins, en frá þeim hefur heyrst hörð gagnrýni á ríkisstjórnina. „Fjármálaráðherra verður að horfast í augu við að aðgerðir ríkisstjórnarinnar á síðustu mánuðum og misserum hafa aukið á misskiptingu, skapað aukna óþreyju meðal lágtekjufólks og meðaltekjufólks og þar af leiðandi þrýst upp þörfinni á kauphækkun.“ Árni Páll sagðist sammála Bjarna að kjarasamningar styðji við efnahagslegan stöðugleika, „…en ríkisstjórn ber grundvallarábyrgð á því að tryggja að aðstæður séu með þeim hætti að hægt sé að ná slíkum kjarasamningum.“ Ríkisstjórn Íslands verður ekki leidd í áhorfendastúku í þeim átökum sem eru fram undan. Henni er ætlað að taka þátt í átökunum sjálfum, hún verður á vígvellinum. Hjá því verður ekki komist. Hvaða væntingar sem ráðherrar kunna að hafa um annað. Í allra minni er aðkoma ríkisstjórnarinnar að samningum lækna. Friður komst ekki á einungis vegna þess að samningar tókust um kaup og kjör. Meira þurfti til, vilyrði um fjölbreyttari rekstur heilbrigðisþjónustu og fleira vó þar þungt. Ríkisstjórnin á eftir að stíga inn í hringinn. Orð Bjarna Benediktssonar hafa fallið. Hann er ekki hægt að skilja á annan veg en þann að hagsæld þjóðarinnar byggist á lágum launahækkunum. Seðlabankinn hefur líka talað. Greint frá hversu mikið er til skiptanna. Þeir sem hafa meira hafa náð sér í stærri sneiðar en öðrum eru ætlaðar. Allir þorri launamanna á eftir að semja. Staðan þrengist og í henni verður æ meir horft til ríkisstjórnarinnar. Jafnvel má segja að ríkisstjórnin væri betur sett hefði hún gott útspil á hendi. Til að mynda lækkun vörugjalda, en sú aðgerð verður ekki gerð tvisvar. Mikið ber í milli. Að venju er horft til ríkisstjórnarinnar sem samkvæmt hefð á beina aðkomu að gerð almennra kjarasamninga. Nú reynir á.