Lífið

Tónverk úr rafsegulbylgjum ljósleiðara

Freyr Bjarnason skrifar
Frímann og Curver bjuggu til 40 mínútna tónverk úr titringi ljósleiðara.
Frímann og Curver bjuggu til 40 mínútna tónverk úr titringi ljósleiðara. Mynd/Sigurjón Ragnar

Curver Thoroddsen, Frímann Kjerúlf, eðlisfræðingur og myndlistarmaður, og Kristján Leósson, doktor í rafmagnsverkfræði, hafa þjappað mánaðarlöngum sveiflum og titringi ljósleiðara niður í 40 mínútna tónverk.

„Þetta eru þung hljóð, svona drunur og stöðugur bassi. Gríðarlega flott,“ segir Frímann, sem telur líklegt að enginn hafi áður nýtt ljósleiðara á þennan máta. Tæknin er þó þekkt, því hana notar geimferðastofnunin NASA við að mæla rafsegulsbylgjur út frá iðrum jarðar utan úr geimnum.

Leysi-ljósgeislum var kastað eftir ljósleiðara Mílu frá Vogum á Vatnsleysuströnd í símstöð í Breiðholti. „Í raun má segja að ljósleiðarinn sé ekki hugsaður sem hljóðfærið sjálft heldur hljóðneminn, því umhverfið hafði áhrif á ljósið á leiðinni,“ segir Frímann. „Við ferðalagið kom flökt á ljósið og það sveiflaðist til. Því var svo beint inn í mæli sem nam breytingarnar á ljósinu á leiðinni, sem við svo breyttum í hljóð.“

Hugmyndina fékk Kristján og bar undir Frímann. Þeir fengu Curver til liðs við sig en hann hefur kennt hljóðlist í Listaháskólanum.

Tónverkið verður flutt í Norræna húsinu á Vetrarhátíð 5.–8. febrúar. Bakhjarlar verksins eru Síminn, Háskóli Íslands, Míla og Nýsköpunarsjóður Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×