Körfubolti

Hverjum mæta Stjörnumenn og Keflavíkurkonur í Höllinni?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnssonhefur ekki tapað leik með KR í vetur.
Brynjar Þór Björnssonhefur ekki tapað leik með KR í vetur. Vísir/Vilhelm
Undanúrslitum Poweradebikarsins lýkur í kvöld. Karlalið Stjörnunnar og kvennalið Keflavíkur hafa þegar tryggt sér sæti í bikarúrslitaleiknum í Höllinni.

Það bíða margir spenntir eftir leik KR og Tindastóls í DHL-höllinni klukkan 19.15 í kvöld enda á ferðinni tvö efstu lið Dominos-deildar karla og jafnframt stutt síðan Stólarnir urðu fyrstir til að vinna KR-inga í vetur.

Sá leikur fór fram í Síkinu á Sauðárkróki fyrir ellefu dögum þar sem Tindastólsmenn hafa unnið alla leiki sína í vetur en liðin mætast nú þar sem KR-liðið reddaði sér í framlengingu í fyrri deildarleik liðanna.

Leikurinn á Króknum var eini leikurinn sem Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, hefur misst af á tímabilinu og hefur því ólíkt liðsfélögum sínum ekki enn tapað leik í vetur. KR hafði leikið án annarra lykilleikmanna í vetur án þess að tapa leikjum.

Nágrannar Grindavíkur og Njarðvíkur mætast hjá konunum klukkan 19.15 í Grindavík. Sverrir Þór Sverrisson gerði Njarðvíkurkonur að bikarmeisturum fyrir þremur árum en að þessu sinni mun hann ásamt stelpunum sínum í Grindavík reynda að koma í veg fyrir að 1. deildarlið Njarðvíkurkvenna komist alla leið í Höllina.

Karlalið Stjörnunnar komst áfram eftir sigur í Borgarnesi í gær og kvennalið Keflavíkur sýndi styrk sinn með öðrum sigri sínum á toppliði Snæfells á fjórum dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×