Körfubolti

Sverrir Þór taplaus á nýja árinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sjö sigrar í sjö leikjum í janúarmánuði. Sverrir Þór Sverrisson er búinn að kveikja á báðum Grindavíkurliðunum eftir erfiða byrjun á tímabilinu.
Sjö sigrar í sjö leikjum í janúarmánuði. Sverrir Þór Sverrisson er búinn að kveikja á báðum Grindavíkurliðunum eftir erfiða byrjun á tímabilinu. Fréttablaðið/ernir
Heitustu liðin í Dominos-deildunum þessa dagana eru karla- og kvennalið Grindvíkinga. Sólin er komin upp í Grindavík eftir dimma daga fyrir áramót og Grindvíkingar hafa nú unnið flesta leiki í röð í báðum deildum.

Karlalið Grindavíkur hefur unnið fimm leiki í röð og þessir sigrar hafa skilað liðinu upp í sjöunda sætið fyrir umferðina sem hófst í gær en það er jafnframt bara tvö stig upp í þriðja sæti deildarinnar. Grindvíkingar heimsækja Þór úr Þorlákshöfn í kvöld.

Kvennalið Grindavíkur hefur unnið sex leiki í röð eða öll lið deildarinnar í einum rykk fyrir utan topplið Snæfells sem er næsta á dagskrá í deildinni en fyrst fá Grindavíkurkonur Njarðvík í heimsókn í undanúrslitum bikarsins.

Það var vissulega dimmt yfir Röstinni í Grindavík í byrjun desembermánaðar þegar karlaliðið var aðeins búið að vinna 2 af fyrstu 9 leikjum sinum og kvennaliðið hafði tapað tveimur leikjum í röð sem þýddi að liðið var ekki lengur meðal fjögurra efstu liðanna.

Svo vill til að þjálfari beggja liðanna er Sverrir Þór Sverrisson og honum tókst að snúa við blaðinu hjá báðum liðum. Lykilatriðið voru flottir sigrar í síðustu leikjum fyrir jólafríið og síðan hafa bæði liðin verið ósigrandi í fyrsta mánuði nýja ársins.

Nýir bandarískir leikmenn hafa að sjálfsögðu hjálpað til sem og að karlaliðið endurheimti hinn stórefnilega Jón Axel Guðmundsson og menn eins og Jóhann Árna Ólafsson úr meiðslum.

Sverrir Þór á samt mikið hrós skilið að hafa snúið við báðum skútum á sama tíma og lið hans eru til alls vís í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×