Heilsa

Er reglubundin hreyfingáhættusöm?

Nanna Árnadóttir og íþróttafræðingur skrifa
Álagsmeiðsli geta orsakast bæði af innri og ytri þáttum.
Álagsmeiðsli geta orsakast bæði af innri og ytri þáttum. visir/getty
Þegar hreyfing af einhverju tagi er stunduð er alltaf ákveðin áhætta á meiðslum. Meiðsli geta hent hvern sem er, hvort sem um afreksíþróttamann er að ræða eða einstakling sem stundar hreyfingu sér til heilsubótar. Meiðsli geta stafað af tvenns konar áverkum, annars vegar áverkum vegna slysa og hins vegar álagstengdum áverkum sem stafa venjulega af of einhæfu æfingaálagi yfir langt tímabil eða ofálagi eftir eitt skipti.

Álagsáverkar eru oft flóknir í meðhöndlun því samspil ólíkra þátta í hreyfikerfi er orsök þeirra en áverkar vegna slysa beinast eingöngu að meininu. Þegar um of mikið einhæft æfingaálag er að ræða getur það orðið til þess að líkaminn verður endurtekið fyrir minniháttar áverkum. Þetta gerist vegna þess að líkaminn fær ekki nægilega langan tíma til þess að jafna sig eftir álagið og verður það til þess að frumur og vefir ná ekki að aðlagast þeim breytingum sem eiga sér stað og byrja þess í stað að brotna niður og hrörna sem leiðir síðan af sér álagsmeiðsli.

Ástæður álagsmeiðsla geta verið bæði innri og ytri þættir. Innri þættir eru einstaklingsbundnir en geta verið ójafnvægi vöðva, misræmi í líkamsbyggingu, stífir vöðvar, óstöðugleiki og ónægur líkamsstyrkur. Ytri þættir geta verið léleg tækni, lélegur útbúnaður og of mikið æfingaálag eða rangar breytur á lengd eða magni æfinga og er talið að sá þáttur sé algengasta orsök álagsmeiðsla.

Meðferð álagsáverka beinist að ólíkum þáttum en til að byrja með þarf að losa einstaklinginn við verki og önnur einkenni. Það mikilvægasta er þó að reyna að komast að orsök meinsins og stuðla þannig að varanlegum bata.

Áhætta á meiðslum ætti þó ekki að vera afsökun fyrir hreyfingarleysi þar sem það getur skapað jafn stórt heilsufarslegt vandamál ef ekki stærra. Hinn gullni meðalvegur á við hér eins og í öllu öðru.

Gott er að hafa eftirfarandi reglur í huga



1. Hafið hreyfinguna fjölbreytta. Byggja ætti alla vöðva líkamans jafnt upp til þess að forðast ójafnvægi. Gott þol er mikilvægt og teygjur eru nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir stífleika í vöðvum.

2. Gætið þess að útbúnaður og ytri aðstæður séu í lagi, eins og til dæmis skór, undirlag og fleira.

3. Rétt tækni skiptir höfuðmáli. Vandið ykkur við æfingarnar.

4. Farið ekki of hratt af stað og munið að Róm var ekki byggð á einum degi. Líkaminn þarf tíma til þess að aðlagast álagi og nýjum hreyfingum. Ef þið eruð ekki viss hvernig þið eigið að stýra álaginu, leitið þá ráða hjá fagaðilum.

5. Góð hvíld er eins nauðsynleg og æfingin sjálf. Vöðvarnir þurfa á henni að halda til þess að geta byggt sig upp.

6. Holl og góð næring skiptir höfuðmáli til þess að byggja upp heilbrigðan líkama. Ef næringin er ekki nægilega mikil geta vöðvarnir brotnað niður í stað þess að byggja sig upp og þá er hætta á meiðslum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.