Körfubolti

Stigahæstu stelpurnar reyna að stoppa hvora aðra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lele Hardy hjá Haukum og Carmen Tyson-Thomas hjá Keflavík
Lele Hardy hjá Haukum og Carmen Tyson-Thomas hjá Keflavík Vísir/Valli og Vilhelm
Heil umferð fer fram í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld og stórleikurinn er í Keflavík þar sem Keflavík og Haukar berjast um annað sæti deildarinnar.

Liðin skiptust á sigrum í fyrri umferðinni en Keflavík er tveimur stigum ofar fyrir leik kvöldsins. Haukakonum nægir sigur til að komast upp í annað sætið á betri árangri í innbyrðisleikjum. Þarna mætast ekki aðeins tvö af bestu liðum deildarinnar heldur einnig tveir af bestu leikmönnum deildarinnar.

Tvær stigahæstu stelpurnar í Domino's-deildinni spila þarna hvor á móti annarri en engin hefur skorað meira en þær Lele Hardy hjá Haukum (28,2 stig í leik) og Carmen Tyson-Thomas hjá Keflavík (26,7). Þessar tvær bandarísku stelpur eru í fararbroddi hvað varðar bæði líkamlegan styrk og baráttu en fá nú að glíma við leikmann á sama stalli.

Lele Hardy hefur verið með tvennu í öllum leikjum Hauka á tímabilinu og tröllatvennu (yfir 20 í stigum og fráköstum) í sex leikjanna, þar á meðal þeim tveimur síðustu. Hardy er efst í stigum, fráköstum og stolnum boltum í deildinni.

Mikilvægi Carmen Tyson-Thomas fyrir Keflavík sést kannski best á því að í síðustu fimm sigurleikjum Keflavíkurliðsins er hún með 35 stig og 14,2 fráköst að meðaltali en hún hefur síðan „bara“ skorað 20,7 stig og tekið 9,0 fráköst í leik í tapleikjum liðsins.

Carmen Tyson-Thomas skoraði bæði meira (+4) og tók fleiri fráköst (+2) en Lele þegar þær mættust síðast en Keflavík vann leikinn. Tyson-Thomas var þá greinilega búin að læra mikið af fyrstu viðureign sinni við Lele þar sem Hardy var með meira en tuttugu fleiri fráköst en hún.

Aðrir leikir kvöldsins eru Snæfell-KR í Stykkishólmi, Grindavík-Breiðablik í Grindavík og Hamar-Valur í Hveragerði. Leikirnir hefjast kl. 19.15.

Vísir/Valli
Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×