Heilsa

Innkaupakarfan skiptir máli

Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir skrifar
Hefjum nýtt ár á því að huga að innkaupum.
Hefjum nýtt ár á því að huga að innkaupum. visir/getty
Ég er hjarðhegðunarmanneskja þegar kemur að innkaupum. Góð markaðssetning virkar vel á mig og ég er lítið fyrir flóknar uppskriftir sem tekur langan tíma að undirbúa. Ég er líka af sykurkynslóðinni. Kynslóð sem vissi lítið um áhrif matar eða næringarsnauðs matar á líkamann.

Á skólaárunum borðaði ég Cheerios í morgunmat með miklu magni af sykri. Eiginlega meiri sykri en Cheerios. Síðan í frímínútum var súkkulaðisnúður og Florídana selt í skólanum allar frímínútur, ef það var ekki keypt þá var farið í sjoppuna og keypt Snickers og appelsín. Allt inniheldur þetta gríðarlegt magn sykurs og litla sem enga næringu. Eflaust þekkja margir þessa sögu og brosa út í annað núna.

80/20% reglan við lýði

En ég hef lært mikið um næringu síðan þá og langar að deila því með ykkur hvað virkaði fyrir mig til að sporna við hjarðhegðuninni. Nefnilega 80/20 reglan sem felst í því að leitast við að borða um 80% hreinan mat. Þar á ég við korn, grænmeti, ávexti, fisk og hreint kjöt. Hin 20% leyfi ég mér ýmislegt.

Mér reiknast til að í 70-80% tilfella borði ég heima hjá mér og það gefur mér það öryggi að ég sé að borða nákvæmlega það af heilsusamlegum og næringarríkum mat. Það er, ef ég held mig við að velja vel í innkaupakörfuna fyrir vikuna.

Innkaup vikunnar til heimilisins skipta því öllu máli. Til þess að láta markaðinn ekki stýra því hvað fer í mína innkaupakörfu fer ég meðvituð og södd í búðina. Rannsóknir um neysluvenjur hafa sýnt að það er auðvelt að hafa áhrif á hegðun okkar og að við beitum hraðanum frekar en skynsemi og ígrundun við ákvarðanatöku þegar við kaupum í matinn. Ekki er betra að vera svangur og á hraðferð.

Þetta vita þeir sem markaðssetja óhollustu. Þeir treysta á að við lesum ekki illa skiljanlegar innihaldslýsingar og grípum það sem er auðvelt að reiða fram á stuttum tíma og jafnvel ódýrt. Lítil áhersla er á hvaða næringarefni eru til staðar og í hvaða hlutföllum.

Sem betur fer eru jákvæð merki á lofti sem auðvelda okkur val á hollum mat. Dæmi um það er Skráargatið sem hefur verið innleitt hérlendis og fæst einungis merkt á matvöru sem inniheldur minna magn af sykri, salti og fitu og meira magn af trefjum og hollrar fitu. Vonandi bætast margar Skráargats-vörur við á nýju ári. Önnur leið til að halda innkaupakörfunni í góðu horfi er að hafa meira af grænmeti, ávöxtum, hreinu korni, fiski og hreinu kjöti í körfunni og minna eða ekkert af pökkuðum tilbúnum vörutegundum.



Hugaðu að innkaupum


Málsverðurinn skiptist í þrjá hluta:

1) kjöt, fiskur, egg eða baunaréttur

2) kartöflur, pasta eða grjón

3) grænmeti eða ávextir

Holl fita þarf svo að vera með, eins og til dæmis lýsi eða aðrar olíur, og ávextir á milli mála. Draumastaðan væri að hafa ráðleggingar um mataræði á myndrænan máta í botni innkaupakörfunnar. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna myndum við kaupa meira af grænmeti og ávöxtum ef svo væri. Enn annað ráð sem oft hefur verið talið til er að skrifa niður það sem vantar. Það ráð er bæði gott fyrir budduna og heilsuna.

Hefjum nýtt ár á því að huga að innkaupunum. Það gefur tóninn fyrir vikuna og ef þau eru rétt samsett þá þurfum við ekki endilega að vera að velta okkur upp úr hvort við fengum okkur nokkrar tertusneiðar í veislunni hjá Villu frænku í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.