Körfubolti

Þjálfari Skallagrímsliðsins vann fyrir spænska sambandið í jólafríinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Angel Rodriguez og leikmenn kvennaliðs Skallagríms.
Manuel Angel Rodriguez og leikmenn kvennaliðs Skallagríms. Mynd/Fésbókarsíða Skallagríms
Eini taplausi meistaraflokksþjálfarinn í efstu tveimur körfuboltadeildum karla og kvenna á Íslandi hélt þjálfaranámskeið fyrir spænska körfuknattleikssambandið þegar hann fór heim til Spánar um jólin.

Manuel Angel Rodriguez tók við kvennaliði Skallagríms fyrir þetta tímabil og það er ekki hægt að kvarta mikið yfir árangrinum síðan að hann gerðist þjálfari liðsins.

Rodriguez og Skallagrímsstelpurnar hafa unnið alla ellefu deildar- og bikarleiki sína á tímabilinu en liðið á toppi 1. deildar kvenna og komið í átta liða úrslit Poweradebikarsins.

Skallagrímsliðið er með 10 sigrar í 10 leikjum í 1. deildinni og með tíu stiga forskot en liðið í öðru sæti, KR, á þrjá leiki inni á Skallagrím.

Manuel Angel Rodriguez er 35 ára gamall og þjálfaði í fyrra sænska liðið Solna Vikings í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð.

Manuel Angel er nú staddur í jólafríi á Spáni en situr þó ekki aðgerðalaus þar sem hann hefur síðustu daga verið með kennslubúðir fyrir þjálfara á vegum spænska körfuknattleikssambandsins.

Búðinar sem um ræðir nú eru kennsla í varnarleik en umgjörðin er skipulögð af þjálfunarskóla spænska körfuknattleikssambandsins.

Þetta eru ekki fyrstu verkefnin sem Manuel tekur að sér fyrir spænska körfuknattleikssambandið en hann hefur meðal annars verið aðalþjálfari sextán ára landsliðs kvenna á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×