Erlent

Tugir létust í loftárásum á sýrlensku borgina Idlib

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá borginni Idlib í dag.
Frá borginni Idlib í dag. vísir/getty
Að minnsta kosti 43 létust í dag í loftárásum á borgina Idlib í Sýrlandi. Borgarbúar segja að Rússar séu ábyrgir fyrir árásunum en Rússar hafa sjálfir ekki staðfest að þeir séu á bak við árásirnar.

Markaðstorg í borginni, heimili fólks og opinberar byggingar voru á meðal þess sem sem skotið var á í árásunum, að því er fram kemur í frétt BBC.

Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í september til að styðja við baráttu stjórnarhersins í landinu gegn uppreisnaröflum. Að sögn Rússa eru skotmörk þeirra einungis hryðjuverkamenn, sem flestir tengjast hryðjuverkasamtökunum ISIS.

Samtök sem vilja Assad Sýrlandsforseta burt segja hins vegar að árásir Rússa hafi flestar beinst að uppreisnarmönnum sem njóta stuðnings Vesturlanda. Að sögn samtakanna slösuðust að minnsta kosti 170 manns í árásunum á Idlib í dag.

Uppreisnarmenn sem berjast gegn stjórnarhernum í Sýrlandi náðu völdum í Idlib fyrr á þessu ári. Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í tæp 5 ár og hafa 250 þúsund manns látist og milljónir þurft að flýja heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×