Skoðun

100 ár

Árni Páll Árnason skrifar
Á líðandi ári fögnuðum við öll 100 ára kosningarétti kvenna. Á næsta ári fögnum við 100 ára afmæli verkalýðshreyfingar og stjórnmálasamtaka jafnaðarmanna, Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins. Hvort er öðru tengt: Með kosningarétti fátækra karla og eignameiri kvenna skapaðist fyrst forsenda fyrir annars konar stjórnmálaflokkum en gömlum forréttindaflokkum. Stjórnmálahreyfing jafnaðarmanna er því afsprengi almennari kosningaréttar og nýs valds þeirra hópa sem fram að því höfðu verið hornreka í íslensku samfélagi. Það eru stjórnmál sem tengja saman skynsemi og réttlæti, hug og hjarta.

Í 100 ár höfum við barist fyrir stærstu framfaraskrefum íslenskrar þjóðar. Almenn lýðréttindi, vinnuvernd, almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, húsnæði, orlofsréttindi, lífeyrisréttindi, baráttan gegn kynbundnum launamun, aðgangur allra að menntun og heilbrigðisþjónustu, frjáls samkeppni og barátta gegn einokun og hringamyndun og opnun milliríkjaviðskipta: Allt hafa þetta verið baráttumál jafnaðarfólks í heila öld.

Íslenskt samfélag er óþekkjanlegt frá því sem var fyrir 100 árum síðan og ekki síst fyrir baráttu jafnaðarfólks og verkalýðshreyfingar. En verkefnin verða áfram til. Ný tækni og opin landamæri hafa aukið möguleika fyrir venjulegt fólk til aukinna áhrifa, en þau hafa líka dregið úr félagslegri samstöðu og ýtt undir efnalega misskiptingu. Forréttindaklíkur reyna enn sem fyrr að byggja múra um íslenskt efnahagslíf til að verjast samkeppni og skammta launafólki þannig lakari kjör en bjóðast í nágrannalöndunum. Svar jafnaðarfólks er enn sem fyrr opnun landamæra og samstaða með meðbræðrum og systrum um allan heim. Við trúum því enn sem fyrr að það sé betra að bæta hag allra en byggja múra í kringum okkur sjálf.

Jafnaðarstefna 21. aldarinnar mun snúast um að nýta það einstaklingsfrelsi sem lýðræði, tækniframfarir og opnun landamæra hafa gert mögulegt, án þess þó að fórna því frelsi frá skorti og fátækt sem okkur tókst að auka í krafti almennrar samstöðu á liðinni öld. Með hug og hjarta berjumst við áfram fyrir tækifærum fyrir alla og réttlátri skiptingu landsins gæða.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×