Handbolti

Gott að vera Hafnarfjarðarlið í úrslitaleik í Íþróttahúsinu við Strandgötu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukarnir hafa verið öflugir í deildarbikar HSÍ undanfarin ár.
Haukarnir hafa verið öflugir í deildarbikar HSÍ undanfarin ár. Vísir/Ernir
Haukar og Valur tryggðu sér í gær sæti í úrslitaleik Flugfélags Íslands bikarsins í handbolta og spila því um deildabikarinn í Strandgötunni klukkan 20.30 í kvöld.

Hafnarfjarðarliðin hafa nánast verið fastagestir í úrslitaleik deildarbikars HSÍ síðan að farið var að spila hann í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði.

Valsmenn unnu Flugfélags Íslands bikarinn í fyrra en það var jafnframt eini úrslitaleikur keppninnar frá 2009 sem innihélt ekki Hafnarfjarðarlið og í eina skiptið á síðustu sex árum sem Hafnarfjarðarlið vann ekki deildarbikar HSÍ.

Hafnarfjarðarlið hefur þannig komist í sex af síðustu sjö úrslitaleiknum deildarbikars HSÍ eða síðan farið var að spila í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarlið hefur jafnframt aldrei tapað úrslitaleik karla á Strandgötunni nema þá fyrir öðru Hafnarfjarðarliði.

Hafnarfjarðarlið tapaði síðast úrslitaleik deildarbikars karla á móti liði utan Hafnarfjarðar í desember 2008 þegar Fram vann Hauka 35-29 en sá úrslitaleikur fór fram í Laugardalshöllinni. Framarar voru þá að vinna Hauka í úrslitum annað árið í röð.

Haukar unnu deildarbikar HSÍ árin 2009, 2011 og 2013 en FH-ingar unnu hann 2010 og 2012. Haukar unnu FH í úrslitaleikjunum 2011 og 2013.

Það hefur verið keppt í deildarbikar HSÍ frá 2006. Fyrstu tvö tímabilin fór hann fram um vorið en frá desember 2007 hefur verið spilað um hann milli jóla og nýárs. 2007 og 2008 var spilað til úrslita í Laugardalshöllinni en frá 2009 hefur heimili deildabikars HSÍ verið í Hafnarfirðinum.

Flestir úrslitaleikir deildarbikars HSÍ í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði:

4 - Haukar (2009, 2011, 2013, 2015)

4 - FH (2010, 2011, 2012, 2013)

2 - Akureyri (2009, 2010)

2 - Valur (2014, 2015)

1 - Fram (2013)

1 - Afturelding (2014)

Flestir deildarbikarar unnir í Íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði:

3 - Haukar (2009, 2011, 2013)

2 - FH (2010, 2012)

1 - Valur (2014)

Vísir/Ernir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×