Erlent

Danskur karlmaður ákærður fyrir að ganga til liðs við ISIS

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Tuttugu og þriggja ára danskur ríkisborgari var í dag ákærður fyrir að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin Íslamskt ríki í Sýrlandi. Einungis nokkrir dagar eru frá því að ný hryðjuverkalöggjöf tók gildi í Danmörku, og er maðurinn sá fyrsti þar í landi sem ákærður er fyrir brot af þessu tagi.

Talið er að maðurinn hafi gengið til liðs við samtökin þegar hann ferðaðist til Sýrlands árið 2013 en hann var handtekinn þegar hann reyndi öðru sinni að fara þangað.  Þá leikur jafnframt grunur á að maðurinn hafi styrkt samtökin fjárhagslega.

Hugsanlegt þykir að maðurinn sé einnig með ríkisfang í Tyrklandi. Lise-Lotte Nilas saksóknari sagði í yfirlýsingu sinni í dag að beðið sé staðfestingu þess efnis frá tyrkneskum yfirvöldum, og að þá verði reynt að fá hann sviptan danska ríkisborgararéttinum.

Maðurinn á yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi, en réttarhöld yfir honum hefjast líklega í mars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×