Handbolti

Guðlaugur: Ógeðslega svekktur með að stigið hafi verið tekið af okkur

Anton Ingi Leifsson í N1-höllinni að Varmá skrifar
Guðlaugur segir sínum mönnum til í leiknum í kvöld.
Guðlaugur segir sínum mönnum til í leiknum í kvöld. vísir/ernir
„Ég er rosalega svekktur að hafa tapað. Mér fannst við vera búnir að vinna fyrir stigi þarna í lokin og ég er ógeðslega svekktur með að það hafi verið tekið af okkur,” sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, hundsvekktur við Vísi í leikslok eftir eins marks tap gegn Aftureldingu, 22-21.

„Það er ofboðslega mikill karakter hjá okkur að koma til baka. Þeir eru betri en við heilt yfir og við erum að ströggla. Þeir spiluðu góða vörn og Davíð var að verja vel í markinu.”

„Við áttum í smá vandræðum með að skora, en við héldum alltaf áfram og við erum alltaf líklegir þegar við dettum í smá gír. Þetta var bara frábær karakter og það er eitthvað sem ég veit að býr í okkar hóp.”

Framarar voru gífurlega ósáttir með vítakastdóminn sem tryggði Aftureldingu sigur í leiknum og var Guðlaugur súr varðandi þann dóm.

„Þeir voru búnir að sleppa svona atriði fyrr í leiknum sem var nákvæmlega eins. Það er bara ekki nógu gott. Maður á að segja sem minnst um dómarana í þessu, en mér fannst þeir bara ekki að standa sig nægilega vel hér í dag. Ég segi ekki meira um það.”

„Ég var ánægðastur með karakterinn í dag. Við erum ekki að spila nægilega vel og karakterinn hjá okkur að halda áfram og hafa trú á verkefninu. Við hefðum getað gefist upp fjórum til fimm mörkum undir og misst hausinn, en við héldum áfram og erum að koma okkur í færi.”

„Davíð var að verja vel frá okkur. Við förum með tvö víti og örugglega sex dauðafæri, en ég er fyrst og fremst ánægðastur með karakterinn og baráttuna.”

Fram er nú komið í jólafrí, að undanskildum deildarbikarnum milli jóla og nýárs, og Guðlaugur sé fríið kærkomið.

„Nú hefst bara undirbúningur og við erum ánægðir með þennan fyrri hluta. Við þurfum bara að vinna vel í okkur í fríinu og það er deildarbikarinn milli jóla og nýárs sem er bara gaman að taka þátt í. Svo förum við bara inn í janúar tilbúnir að æfa og standa okkur. Okkur veitir ekkert að því til að koma okkur aftur saman og koma okkur aftur á beinu brautina,” voru lokaorð Guðlaugar í leikslok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×