Erlent

Pútín segir Rússa langt því frá hafa nýtt allan sinn mátt í Sýrlandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. Visir/EPA
Rússar eru ekki að nýta allan sinn mátt í heraðgerðum í Sýrlandi. Þetta kom fram í máli forseta Rússlands, Vladimir Putin,  í dag eftir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafði kallað eftir friðarviðræðum fyrir Sýrland í gær.

„Við eigum aðra hluti sem við munum nota ef þörf krefur,“ sagði Putin.

Stríðið í Sýrlandi er á sínu fimmta ári. 250 þúsund manns hafa látist í átökum og milljónir lagt á flótta. Samkvæmt áætlun öryggisráðsins er gert ráð fyrir að sameinuðu ríkisstjórn muni taka til starfa innan sex mánaða, að því er fram kemur á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC.

Hvergi er hins vegar minnst á hlutverk forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, í þessum áætlunum öryggisráðsins. Er vonast til að viðræður um vopnahlé geti hafist strax í janúar.

Vesturlönd hafa kallað eftir því að hann stígi til hliðar á meðan yfirvöld í Rússlandi og Kína hafa sagt enga þörf á að al-Assad láti af embætti svo friðarviðræður geti átt sér stað.

Rússar eru einn öflugasti samherji forseta Sýrlands og hafa sent vopn til sýrlenska hersins þrátt fyrir gagnrýni alþjóða samfélagsins. Rússar hófu loftárásir í september síðastliðnum og sögðu meðlimi ISIS-hryðjuverkasamtakanna og aðra hryðjuverkamenn skotmörkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×