Fótbolti

Fyrsta tap Bayern í deildinni kom gegn Mönchengladbach

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bayern Munchen tapaði fyrsta leik sínum á tímabilinu í þýsku deildinni í dag er liðið fékk 1-3 skell gegn Borussia Mönchengladbach.

Bayern Munchen hefur einfaldlega verið óstöðvandi í þýsku deildinni á þessu tímabili en liðið var búið að vinna 13 af fyrstu 14 leikjum sínum og sat á toppi deildarinnar með 40 stig.

Leikmenn liðsins sáu hinsvegar aldrei til sólar í leiknum í dag og komust heimamenn í Mönchengladbach 3-0 yfir áður en Franck Riberý sem sneri aftur í leikmannahóp Bayern í dag klóraði í bakkann á 81. mínútu.

Lengra komust þýsku meistararnir ekki og fögnuðu leikmenn Mönchengladbach því sigrinum en þetta er annar leikurinn í röð sem þeir vinna gegn Bayern Munchen.

Í höfuðborginni vann Hertha Berlin 2-1 sigur á tíu leikmönnum Bayer Leverkusen en gestirnir í Leverkusen misstu Sebastian Boenisch af velli á 17. mínútu leiksins.

Þrátt fyrir það tókst Javier Hernandez, Chicharito, að jafna metin fyrir Leverkusen en bandaríski landsliðsmaðurinn John Brooks skoraði sigurmark Herthu Berlin á 61. mínútu leiksins.

Öll úrslit dagsins má sjá hér fyrir neðan en Wolfsburg tekur á móti Dortmund í lokaleik dagsins sem hefst klukkan 17.30.

Úrslit dagsins:

Borussia Mönchengladbach 3-1 Bayern Munchen

Hamburger SV 1-3 Mainz

Hertha Berlin 2-1 Bayer Leverkusen

Ingolstadt 1-1 Hoffenheim

Köln 0-1 Augsburg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×