Fótbolti

Van Gaal: Mörkin munu koma hjá Martial

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Van Gaal stendur þétt við bakið á Martial.
Van Gaal stendur þétt við bakið á Martial. vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, stendur þétt við bakið á franska framherjanum Anthony Martial þrátt fyrir að honum hafi gengið illa að skora að undanförnu.

Martial, sem er nýorðinn 20 ára, kom til United frá Monaco á lokadegi félagaskipagluggans og fór frábærlega af stað með nýja liðinu. Martial skoraði fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum með United en hefur síðan þá aðeins skorað eitt mark í 13 leikjum.

Þrátt fyrir markaþurðina hefur Van Gaal trú á sínum manni en United mætir Wolfsburg í lokaleik sínum í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

„Hann er mjög hæfileikaríkur. En hann er aðeins tvítugur og við verðum að gefa honum tíma. Það er alltaf erfitt þegar þú spilar fyrir lið eins og Manchester United en ég er sannfærður um að  hann mun byrja að skora á ný,“ sagði Van Gaal.

Martial verður að öllum líkindum í byrjunarliði United í Wolfsburg í kvöld en hinn framherji liðsins, Wayne Rooney, er frá vegna meiðsla.

United er með átta stig í 2. sæti riðilsins og má ekki ná verri úrslitum en PSV Eindhoven sem er stigi á eftir enska liðinu. Hollensku meistararnir taka á móti CSKA Moskvu í kvöld.

United hefur gengið bölvanlega að skora í undanförnum leikjum en þrátt fyrir það hefur Van Gaal trú á að mörkin komi fyrr en seinna.

„Maður veit aldrei fyrir víst en að gefinni reynslu munu mörkin koma á endanum,“ sagði Hollendingurinn sem er á sínu öðru tímabili á Old Trafford.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×