Erlent

Sakar Rússa um þjóðernishreinsanir

Samúel Karl Ólason skrifar
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands.
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands. Vísir/EPA
Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, sakaði í dag Rússa um þjóðernishreinsanir með loftárásum þeirra í norðurhluta Sýrlands. Hann sagði árásirnar beinast gegn Túrkmenum og súnnítum við Latakiahérað. Samskipti Rússlands og Tyrklands hafa ekki verið upp á marga fiska frá því að Tyrkir skutu niður Rússneska sprengjuflugvél við landamæri Sýrlands og Tyrklands.

Ummæli forsætisráðherrans eru ekki talin líkleg til að draga úr spennu á milli ríkjanna.

Davutoglu sagði Rússa vera að reyna að reka Túrkmena og þá súnníta sem ekki eru vinveittir Bashar al-Assad frá svæðinu. Þetta sagði hann á blaðamannafundi í dag.

„Þeir vilja reka þá á brott. Þeir vilja hreinsa þessi þjóðerni af svæðinu svo að svæði ríkisstjórnarinnar og herstöðvar Rússa séu öruggar,“ er haft eftir Davutoglu í frétt BBC.

Rússar hafa haldið því fram að loftárásir þeirra beinist gegn ISIS og öðrum vígahópum í Sýrlandi. Greinendur og uppreisnarhópar segja bróðurpart loftárása þeirra þó beinast gegn uppreisnarhópum, sem ekki sé hægt að kalla íslamista.

Bæði Rússar og Tyrkir hafa undanfarin misseri sakað hvorn annan um að hjálpa Íslamska ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×