Handbolti

Einar: Erum ekki með neinar stórstjörnur en flotta liðsheild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Jónsson á hliðarlínunni í kvöld.
Einar Jónsson á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Anton
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, var eðlilega kátur eftir þriggja marka sigur Garðbæinga, 26-23, á Akureyri í 16-liða úrslitum Coca-Cola bikarins í kvöld.

"Svona er þetta stundum, þetta datt með okkur í dag," sagði Einar eftir leik.

"Þetta var jafnt en við leiddum meirihlutann af leiknum og héldum út. Við rúlluðum vel á liðinu og það voru allir sem skiluðu einhverju. Ég er ánægður og stoltur að hafa náð að klára þetta."

Stjörnumenn, sem sitja á toppnum í 1. deildinni, leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 16-11, og voru í góðri stöðu lengi framan af seinni hálfleiknum.

Um miðbik hans kom slæmur kafli hjá Garðbæingum og Akureyringar náðu tvívegis að minnka muninn í eitt mark. Þeim tókst þó ekki að jafna þrátt fyrir mörg tækifæri. En skipti það máli að mati Einars?

"Jú, kannski. Við hikstuðum smá á þessum kafla en héldum haus og sigldum þessu heim.

"Sjálfsagt skipti það máli að þeir náðu ekki að jafna," sagði Einar sem var ánægður með hversu vel markaskorið dreifðist hjá Stjörnunni en níu leikmenn liðsins skoruðu í leiknum en aðeins fimm hjá Akureyri.

"Við höfum notað marga leikmenn í vetur og flestir eru með stórt hlutverk í liðinu. Vörnin hjá okkur var frábær í fyrri hálfleik, og eiginlega allan leikinn, og Einar (Ólafur Vilmundarson) var góður fyrir aftan.

"Við erum bara þannig lið að við erum ekki með neinar stórstjörnur en við erum með flotta liðsheild," sagði Einar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×