Enski boltinn

Mun flugþreyta hjálpa Chelsea í Lundúnaslagnum á sunnudaginn?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Vísir/Getty

Tottenham hefur verið á miklu skriði í ensku úrvalsdeildinni að undanförnu og framundan er heimaleikur á móti nágrönunum í Chelsea á sunnudaginn.

Tottenham hefur leikið tólf leiki í röð í deildinni án þess að tapa og hefur fagnað sigri í 6 af síðustu 9 leikjum sínum þar af vann liðið 4-1 sigur á West Ham í Lundúnaslag um síðustu helgi.

Það mun hinsvegar reyna á leikmenn Tottenham í aðdraganda stórleiksins á móti Chelsea því á fimmtudaginn þarf liðið að spila Evrópudeildarleik í Aserbaídsjan.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að það eina sem hann geti gert er að brosa þegar talist berst að leikjaskipulagi Tottenham-liðsins.

Liðið þarf nú að fara í tólf tíma flug, sex tíma hvora leið, til að spila þennan leik við Qarabag og það eru síðan innan við tveir sólarhringar í leikinn við Chelsea þegar verður flautað til leiksloka í Bakú.

„Þetta er eins og vikan þegar við spiluðum á mánudegi (Aston Villa), á fimmtudegi (á móti Anderlecht) og á sunnudegi (á móti Arsenal) eða þrjá leiki á sex dögum. Nú lendum við í öðru eins," sagði Mauricio Pochettino við BBC.

„Ég hlæ. Ég brosi bara," bætti Mauricio Pochettino síðan við í hæðnistón.

Tottenham er í efsta sæti í sínum riðli í Evrópudeildinni með sjö stig eftir fjóra leiki. Liðið hefur eins stigs forskot á Mónakó og þriggja stiga forskot á Qarabag og Anderlecht sem eru í tveimur neðstu sætunum.

Tottenham gæti því lent í vandræðum tapist þessi leikur á móti Qarabag.

Tottenham er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum á eftir Manchester City og Arsenal sem sitja í tveimur síðustu sætunum sem gefa þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×