Sport

Níu ára sigurganga Klitschko á enda

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tyson Fury með beltin í gær.
Tyson Fury með beltin í gær.

Bretinn Tyson Fury gerði sér lítið fyrir í gærkvöldi og vann Úkraínumanninn Wladimir Klitschko í hnefaleikabardaga þeirra í Þýskalandi, en um er að ræða ein óvæntasta sigur sögunnar í þungavigtinni.

Klitschko hefur verið ósigraður í níu ár og drottnað yfir þungavigtinni, en Fury hirti af honum fjögur heimsmeistarabelti með sigrinum í gærkvöldi.

Fury vann bardagann á stigum; 115-112, 115-112 og 116-11, og er aðeins fimmti breski heimsmeistarinn í þungavigt á etir Bob Fitzsimmons, Lennox Lewis, Frank Bruno og David Haye.

„Þú ert alvöru meistari Wlad, takk kærlega fyrir að bjóða mér,“ sagði Fury sáttur og sæll eftir bardagann og söng svo lag með Aerosmith í miðjum hringnum fyrir konuna sína.

Mikið gekk á fyrir bardagann og munaði minnstu að Fury myndi hætta við í gærkvöldi þegar Klitschko vafði hendur sínar án vitnis.

Allt ætlaði um koll að keyra í herbúðum Furys en Klitschko tók af sér vafningana og vafði sig aftur með fulltrúa Furys við hlið sér.

Wladimir Klitschko var búinn að vinna 22 bardaga í röð fyrir gærkvöldið. Hann hefur nú unnið 64 og tapað aðeins fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×