Handbolti

Gunnar: Janus spilaði á samviskunni

Ingvi Þór Sæmundsson í Schenker-höllinni skrifar
Janus skoraði 13 mörk í kvöld.
Janus skoraði 13 mörk í kvöld. vísir/stefán
Janus Daði Smárason átti stórleik þegar Haukar lögðu Val að velli, 25-22, í 12. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Janus skoraði 13 mörk, þar af níu í fyrri hálfleik, og átti auk þess fjölda stoðsendinga á félaga sína.

Það var þó alls óvíst að Janusi gæti spilað leikinn en hann varð fyrir meiðslum í fótbolta á æfingu Hauka á mánudaginn.

"Hann var frábær en hann spilaði svolítið á samviskunni í dag," sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. "Hann meiddist illa á ökkla í fótbolta á æfingu á mánudaginn og ég ákvað að fresta þessum fótboltafundi framyfir þennan leik.

"Hann vissi alveg hvað var í húfi, við urðum að vinna þennan leik til að bjarga fótboltaferlinum hans," sagði Gunnar léttur í bragði en sjálfur var Janus fastur í maraþonviðtali við finnska sjónvarpsstöð.

"Hann mætti hérna á hækjum og hefur ekki getað stigið í löppina síðan á mánudaginn. Hann var teipaður í dag og svo ætluðum við að sjá hvort hann gæti hitað upp eða ekki. Ég var alls ekki viss um að hann gæti spilað," sagði Gunnar ennfremur.

Þjálfarinn var að vonum hæstánægður með sigur Hauka en þeir hafa unnið báða leikina gegn Val í deildinni og eru því búnir að tryggja sér betri stöðu í innbyrðis viðureignum liðanna.

"Þetta var frábær sigur og frábær liðsheild. Varnarleikurinn var góður og við vorum agaðir í sóknarleiknum og hleyptum þeim ekki oft í hraðaupphlaupin sín.

"Þótt Janus hafi verið frábær var liðsheildin stórkostleg," sagði Gunnar en það munaði miklu fyrir Hauka að Giedrius Morkunas fór að verja eins og berserkur í seinni hálfleik eftir að hafa verið rólegur í þeim fyrri.

"Hann var svona upp og miður en tók góða bolta. Hann var góður líkt og vörnin og mér fannst við hafa góða stjórn á leiknum," sagði Gunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×