Erlent

Frakkar munu halda áfram loftárásum sínum á ISIS í Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Francois Hollande Frakklandsforseti heimsótti fyrr í kvöld sjúkrahús í Paríarborg þar sem hann ræddi við heilbrigðisstarfsfólk og nokkra þá sem lifðu af árásirnar.
Francois Hollande Frakklandsforseti heimsótti fyrr í kvöld sjúkrahús í Paríarborg þar sem hann ræddi við heilbrigðisstarfsfólk og nokkra þá sem lifðu af árásirnar. Vísir/AFP
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, greindi frá því í kvöld að Frakklandsher muni halda loftárásum á skotmörk hryðjuverkasamtakanna ISIS í Sýrlandi áfram af fullu afli. Sky News greinir frá þessu.

Fjöldi sjónarvotta hafa greint frá að árásarmennirnir í París hafi hrópað að árásirnar væru hefnd vegna loftárása Frakka í Sýrlandi. Þá hefur ISIS lýst yfir ábyrgð á árásum gærdagsins.

Franskar orrustuþotur hafa tekið þátt í fjölþjóðlegri hernaðaraðgerð undir stjórn Bandaríkjahers gegn vígasveitum ISIS í Sýrlandi og Írak.

Sjá einnig: Einn sjálfsvígssprengjumannanna var með miða á völlinn

Valls greindi jafnframt frá því að stjórnvöld muni líklegast framlengja neyðarástand sem lýst var yfir í landinu í gærkvöldi.

Francois Hollande Frakklandsforseti heimsótti fyrr í kvöld sjúkrahús í Paríarborg þar sem hann ræddi við heilbrigðisstarfsfólk og nokkra þá sem lifðu af árásirnar í gær.

Þrítugur Frakki á meðal árásarmanna

Saksóknarinn Francois Molins staðfesti fyrr í kvöld að 129 hafi fallið og 352 særst í árásunum. Þá staðfesti Molins að allir sjö árásarmennirnir hafi drepist.

Þrír menn voru handteknir í Belgíu fyrr í dag vegna gruns um að þeir hafi komið að skipulagningu hryðjuverkaárásanna.

Molins staðfesti að einn árásarmannanna hafi verið þrítugur Frakki. Sá hafi verið með sakaskrá en aldrei setið í fangelsi. Hann hafi búið í bænum Courcouronnes, 25 kílómetrum vestur af París, og ekki verið undir sérstöku eftirliti vegna gruns um að tengjast hryðjuverkastarfsemi.

Allir árásarmenn eru sagðir hafa notast við Kalashnikov–riffla og sömu gerð af sprengjuvestum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×