Erlent

Repúblikanar vilja stöðva flutninga flóttamanna til Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins.
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins. Vísir/EPA
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríska þingsins, fór í dag fram á að flutningar flóttamanna til Bandaríkjanna yrðu stöðvaðir vegna árásanna í París. Hann sagði að þingið myndi kjósa um málið í næstu viku, en þingmenn flokksins vinna nú að frumvarpi um málið.

Bandaríkin hafa tekið á móti færri en 2.200 flóttamönnum frá Sýrlandi frá 11. október 2011, en Barack Obama, forseti, vill taka á móti tíu þúsund til viðbótar.

„Þjóð okkar hefur alltaf tekið fólki opnum örmum en við getum ekki leyft hryðjuverkamönnum að nýta sér það,“ sagði Ryan við blaðamenn í dag. „Allur er varinn góður.“ 27 ríkisstjórar Bandaríkjanna hafa nú útilokað að taka á móti flóttafólki.

Mögulegt er að einn árásarmannanna í París hafi komið til Evrópu í gegnum Grikkland og þá meðal flóttamanna. Það hefur hins vegar ekki verið staðfest.

Antonio Guterres, yfirmaður Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna.Vísir/EPA
Ekki sanngjarnt að flóttamenn gjaldi

Antonio Guterres, yfirmaður Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að ekki væri rétt að flóttafólk myndi gjalda vegna árásanna. Hann fór fram á að ríki byggðu upp frekari leiðir svo flóttafólk ætti auðveldara með að sækja um hæli löglega. Þannig væri hægt að kanna bakgrunn þeirra betur.

„Það voru ekki flóttamennirnir sem sköpuðu þessi hryðjuverk. Þess í stað voru það hryðjuverk, harðstjórn og stríð sem sköpuðu flóttamennina,“ sagði Guterres.

Á hverjum degi fara fimm til sjö þúsund menn, konur og börn um Grikkland. Guterres sagði ósanngjarnt að kenna þeim öllum um þó að einn hryðjuverkamaður hefði mögulega verið meðal þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×