Fótbolti

Hætt við æfingu Hannover í morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lögreglan fyrir utan AWD-leikvanginn í Hannover í gær.
Lögreglan fyrir utan AWD-leikvanginn í Hannover í gær. Vísir/Getty
Leikmenn Hannover 96 fengu ekki að æfa á heimavelli sínum í morgun eins og til stóð. Í gær átti að fara fram vináttulandsleikur Þýskalands og Hollands á vellinum en hætt var við hann vegna gruns um hryðjuverkaógn.

Talsmaður þýska félagsins sagði við fjölmiðla í morgun að þetta hafi verið ákveðið strax í gærkvöldi, eftir að leiknum var aflýst. Ekki var hægt að tryggja að leikmenn hefðu aðgang að búningsklefa sínum eða vellinum sjálfum.

Nokkur ótti hefur gripið um sig í Þýskalandi vegna þessa og hryðjuverkanna í París á föstudagskvöld.

Sjá einnig: Uppfært: Enginn handtekinn og ekkert sprengiefni

„Þetta kvöld mun breyta öllu fyrir úrvalsdeildina og mun hafa miklar afleiðingar í för með sér fyrir knattspyrnuna alla,“ sagði Martin Kind, einn forráðamanna Hannover, við þýska miðla í gær.

Lögreglan í Þýskalandi leitaði um gjörvallan leikvanginn í Hannover í gær að sprengiefni eftir að hann var rýmdur. Búast má við því hertari öryggisaðgerðum í tengslum við knattspyrnuleiki helgarinnar, bæði í Þýskalandi og víðar.


Tengdar fréttir

Uppfært: Enginn handtekinn og ekkert sprengiefni

Stjórnvöld í Þýskalandi héldu blaðamannafund nú fyrr í kvöld út af hryðjuverkahættunni í Hannover. Mikið upplausnarástand var þar í kvöld eftir að ákveðið var að fresta landsleik Þýskalands og Hollands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×