Fótbolti

Bebé: Ég er eins og Ronaldo

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bebé fagnar marki með Manchester United í æfingaleik í Suður-Afríku.
Bebé fagnar marki með Manchester United í æfingaleik í Suður-Afríku. vísir/getty
Portúgalski framherjinn Bebé, sem Sir Alex Ferguson keypti til Manchester United án þess að hafa séð hann spila, segist vera svipaður leikmaður og Cristiano Ronaldo.

Flestir stuðningsmenn United fá óbragð í munninn þegar þeir heyra minnst á Bebé sem kostaði United ríflega sjö milljónir punda eftir að hann sló í gegn á heimsmeistaramóti heimilislausra.

Bebé spilaði tvo deildarleiki fyrir Manchester United á þeim fjórum árum sem hann var samningsbundinn liðinu, en hann var engu að síður keyptur á þrjár milljónir evra til Benfica í júlí 2014.

Hann er nú á mála hjá Rayo Vallecano í spænsku 1. deildinni og stendur sig vel. Bebé er búinn að skora eitt mark í sex leikjum og hefur fengið lof fyrir sína frammistöðu.

„Átrúnaðargoðin mín eru Didier Drogba og Cristiano Ronaldo,“ segir Bebé í viðtali við spænska í íþróttablaðið AS, en honum finnst hann vera líkur samlanda sínum Ronaldo.

„Ég hleyp eins og Ronaldo og er með sama skotstíl. Hann er klárlega einn af mínum uppáhaldsleikmönnum,“ segir Bebé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×