Skoðun

Nýr gjaldmiðill eða piss í skóinn?

Árni Páll Árnason skrifar
Ríkisstjórnin hefur nú lokið samningum við erlenda kröfuhafa um stöðugleikaframlög, sem fela í sér að kröfuhafarnir fá hundruð milljarða í afslátt af stöðugleikaskatti gegn því að fara ekki í mál við ríkið.

Gráglettið er að hin efnislega niðurstaða er mjög í samræmi við þá leið sem við í Samfylkingunni lögðum til fyrir síðustu kosningar, um að samningsstaðan við kröfuhafa yrði nýtt og gera mætti ráð fyrir að þá skapaðist svigrúm upp á um 300 milljarða sem nýta þyrfti til greiðslu skulda ríkissjóðs. Framsóknarflokkurinn sem ætlaði fyrir kosningar að berja erlenda kröfuhafa með kylfum, semur nú við þá í mestu vinsemd.

Miklu máli skiptir að vel takist til við þessa aðgerð. Eins og seðlabankastjóri hefur sagt, er bara eitt skot í byssunni. Ástæðan fyrir því að skotið er í byssunni er sú að hún var hlaðin í tíð síðustu ríkisstjórnar, gegn vilja núverandi stjórnarflokka. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi meira að segja atkvæði gegn því að fella slitabúin undir höft. Þess vegna höfum við krafist þess að allar staðreyndir verði uppi á borðum og óháðum sérfræðingum og þjóðinni allri gefist tími til að kanna allar forsendur til hlítar. Ef ekki er nægilega vel að verki staðið er nefnilega raunveruleg hætta að verið sé að opna dyr fyrir erlenda kröfuhafa til að sleppa létt frá höftunum, en að þjóðin, lífeyrissjóðir í hennar eigu og innlend fyrirtæki sitji áfram innan hafta.

En ef vel tekst til skapast tækifæri til að stíga næstu skref. Þá verða kjöraðstæður til að taka upp nýjan gjaldmiðil og losa okkur út úr þeim eilífðarvanda sem fylgir krónunni og verðtryggingunni. Ef tækifærið verður ekki nýtt, blasir því miður enn og aftur við ný hringrás uppgangs, verðbólgu, vaxtahækkana, gengisfellingar og hækkunar verðtryggðra lána. Nú þarf ríkisstjórn sem þorir að nýta árangurinn til að gera grundvallarbreytingar til góðs.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×