Páll Winkel hefur íhugað að kæra mútur Ólöf Skaftadóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa 6. nóvember 2015 07:00 „Við vitum oft ekkert um einstaklinga sem eru að koma til okkar í gæsluvarðhald. Þeir gefa upp vitlaus nöfn, kennitölur. Stundum fólk sem hefur engin tengsl við landið. En um leið og við öflum okkur vitneskju um hagi einstaklings, heilsufar eða annað, þá látum við viðeigandi stjórnvöld vita. Gallinn er sá að á Íslandi er lítið við þessu hægt að gera. Mikið veikt fólk, sem þó er metið sakhæft, er bara í fangelsi. Fangaverðir eru hvorki ráðnir til að sinna geðveiku fólki eða öðrum mikið veikum. Ekki dettur okkur í hug að fangaverðir geri að fótbrotnum manni,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri. Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að þroskahamlaður hollenskur maður sæti í gæsluvarðhaldi, grunaður um stórfellt fíkniefnasmygl. Í kjölfarið var fjallað um úrræðaleysi yfirvalda þegar kæmi að því að finna vistun þegar slíkt kæmi upp. „Mönnum dettur það einhverra hluta vegna í hug að fangaverðir eigi að sinna fólki sem er andlega veikt. Kerfið okkar er þannig að fangar eru að þessu leyti annars flokks þegnar. Það er ekki bara ég, einhver krumpaður embættismaður, sem er að segja það heldur er þetta það sem pyntingarnefnd Evrópuráðsins hefur sagt og fleiri. En svo kemur þetta alltaf jafn ofboðslega á óvart þegar þessi mál koma upp og þau eru aldrei leyst nema þau rati í fjölmiðla. Þetta er raunveruleikinn.“Mikill niðurskurður Páll Winkel er lögfræðingur og hefur sinnt starfi fangelsismálastjóra um átta ára skeið. Tvítugur fór hann að vinna í lögreglunni meðfram náminu. Hann starfaði fyrir stéttarfélag lögreglumanna og hjá ríkislögreglustjóra áður en hann varð fangelsismálastjóri. Hann hefur lifað og hrærst í fangelsunum í rúma tvo áratugi. Páll er hálfur Dani, afleiðing ágæts samnorræns samstarfs, eins og hann segir sjálfur, en ólst að mestu leyti upp hjá móður sinni á Íslandi. Hann segir harkið allt þess virði þegar hann hittir fyrrverandi fanga sem hafa snúið við blaðinu. Álagið sé gríðarlegt, og enn frekari niðurskurður blasi við, þrátt fyrir að stofnunin hafi þegar skorið niður fjórðu hverja krónu frá hruni.Óásættanlegt ástand „Það eru á bilinu enginn og upp í fimm, sex fangar á hverjum tíma sem eiga við vandamál, til dæmis þroskaskerðingu, að stríða, og ættu ekki að vera í fangelsi. Þeir eru nokkuð margir núna og það er hrikalegt álag.“ Hann segir dæmi þess að menn fari í geðrof inni í fangelsunum. „En ég undirstrika að það er ekkert samasemmerki á milli geðveiki og hættulegrar hegðunar, en þegar hittist þannig á að viðkomandi er andlega veikur og í mikilli neyslu fíkniefna, með ofbeldisfullan feril að auki – það er ekki góð blanda.“ Hann segir sjaldgæft að fangar fái inni á geðdeild. „Enda er geðdeild að taka við alls konar fólki – frá ungu fólki sem líður illa yfir í gamalt fólk sem er þunglynt og allt þar á milli. Ég hef fullan skilning á því að kolbrjálaður fangi, svo maður tali íslensku, passi ekki alveg inn.“ Páll segir vanta lokaða deild þar sem öryggisskilyrði séu uppfyllt. „Svoleiðis er það ekki og hefur ekki verið. Það er hins vegar þannig að þegar eitthvað gerist, eins og fyrir nokkuð mörgum árum, þá var maður að ljúka afplánun og við vissum öll að hann myndi gera eitthvað rosalegt þegar hann kæmi út. Hann drap annan mann. Þegar þetta gerðist varð tímabundið pólitískt vinsælt að setja fjármagn í deild á Landspítalanum. Síðan breyttist eðli þeirrar deildar og eftir sitjum við í sömu stöðu og áður.“ Hann segir fanga fá inni á geðdeildum í örfáum neyðartilvikum. „Ástæðan fyrir því að ég kem fram og segi frá hlutunum eins og þeir eru, er að við erum búin að vera að horfa upp á það að fangar hafa fyrirfarið sér í afplánun og skömmu eftir afplánun. Það er óásættanlegt. Það er ekki nóg að segja að þetta gerist líka í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég væri alveg sáttur ef við værum að gera allt sem samfélagið getur gert. Við erum ekki að gera það.“Hvað stendur í vegi? „Aðallega pólitískur vilji, því þetta kostar. Þegar menn eru að gera langtímaáætlanir í málum þá vill fólk sjá árangur fljótt en það er ekki raunin í þessu. Það tekur tíma að græða á því að það séu færri í fangelsum, því það kostar jú peninga. Þessi betrun sem þarf að verða tekur mörg ár, meira en kjörtímabil. Það er alls ekkert sáluhjálparatriði hjá mér á vegum hvers það er. Ég vil bara að veikir menn fái þjónustu.“Missa starfsfólk vegna álags Hann segir þetta skapa álag. „Ég er að missa starfsfólk sem ég hef illa efni á að missa. Svona mannauður er ekki eitthvað sem þú tínir upp af götunni. Það þarf sérstaka týpu af fólki til að vinna sem fangaverðir, menn þurfa að halda uppi lögum og reglu en ekki síður hafa brjóstvit og manngæsku.“ Hann segir ástandið hafa versnað. „Refsingar hafa þyngst heiftarlega. Biðlistar myndast. Strax þegar þessi biðlisti var að fara af stað létum við vita af því í öllum þingflokkum sem nenntu að hlusta. Þeir einu sem hafa alltaf staðið með okkur er dómsmálaráðuneytið og nú innanríkisráðuneytið, það er fullur skilningur, en það bara nær ekki lengra.“ Hann segir þetta líka snúast um öryggi fangavarða. „Fólk er langþreytt. Menn eru kannski að vinna einir innan um tíu fanga, þar af helmingurinn mjög illa staddur og hinn í einangrun – lokaður inni 23 tíma á sólarhring. Þetta er hrikalegt. Þetta er spurning um öryggi starfsmanna, vellíðan þeirra og ekki síður um öryggi okkar skjólstæðinga.“Bitnar á öllum Til þess að rétta stöðuna segir Páll að leiðrétta þurfi niðurskurðinn á þessu ári og að auki þurfi 100 milljóna innspýtingu á næsta ári. Ekki hafi verið hægt að mennta fangaverði lengi vegna fjárskorts. „Við þurfum að geta sett fram neyðarlista, geta tekið inn fólk í afleysingar. Við þurfum að hafa lágmarks öryggisatriði í lagi. Við þurfum að hætta að skera niður það sem fangarnir þurfa. Útivist, heimsóknir, nám, vinnu og svo framvegis. Við verðum að halda þessu úti því þetta er ástand sem verður erfiðara, mönnum líður verr. Það endar illa. Við erum gagnrýnd fyrir ýmislegt, til dæmis vorum við að loka svokölluðu Barnakoti um helgar, sem er aðstaða fyrir börn fanga til að koma í heimsóknir. Það er ekki vegna þess að við höfum gaman af því, heldur af því að við eigum ekki fyrir því.“Alltof margir bíða afplánunar Tæplega 500 manns eru á biðlista núna til þess að hefja afplánun en 155 afplánunarpláss eru í fangelsum landsins. „Þetta er ofsalega skrítin tilfinning. Það er ekki lengra síðan en sex sjö ár að menn fóru í afplánun þegar þeir höfðu fengið dóm. Núna, þessum árum seinna, erum við að taka fólk inn til afplánunar sem var dæmd fyrir fjórum, fimm árum. Hætt í dópi og vitleysu, búið að mennta sig, komið með börn og í vinnu. Þá bankar Fangelsismálastofnun upp á og segir, heyrðu þú ert að fara í fangelsi og við þurfum að taka þig inn því dómurinn er að fyrnast. Þetta er geggjað ástand,“ segir Páll. Hann segir það gerast í miklum mæli að dómar fyrnist. „Það eru þeir sem hafa hegðað sér hvað best. Við þurfum að forgangsraða og taka þá sem eru áfram í brotum og þá sem hafa tveggja ára refsingu eða meira.“ Hann segir þetta vera þvert á allar kenningar um tilgang refsingar. „Til þess að refsing virki þarf hún að koma í beinu framhaldi af brotinu. Grunnlögmál hegðunar. Sjáum með börnin okkar, það þýðir ekki að skamma þau mörgum árum seinna eftir að þau gera eitthvað af sér. Það þarf líka að gefa mönnum tækifæri til þess að taka aftur þátt í samfélagi mannanna, þetta er bara rugl.“ Áætlað er að fangelsið á Hólmsheiði verði tilbúið í janúar og starfsemi þar geti hafist um páska. Páll segir það breyta miklu. „Hegningarhúsið og Kvennafangelsið í Kópavogi eru fangelsi sem hafa verið rekin á undanþágum heilbrigðisyfirvalda um áratugaskeið. Fangarnir eru að fara úr óforsvaranlegum aðstæðum yfir í fyrsta fangelsið sem hannað er frá grunni sem fangelsi síðan 1871 á Íslandi.“Langtímaaðstaða fyrir konur í afplánun verður betri en verið hefur „Þarna verður heimsóknaríbúð þar sem börn fanga geta verið hjá aðstandendum. Þarna er töluvert pláss fyrir einangrunarfanga. Öryggismál eru í lagi.“ Auk þess bætast um 30 pláss við, þótt tekið sé tillit til lokana annarra fangelsa. „En ef við ekki höfum fjármagn til þess að reka það breytir það kannski ekki svo miklu. En ég er bjartsýnn.“ Gert er ráð fyrir 70 milljónum aukalega í fjárlögum næsta árs fyrir fangelsið á Hólmsheiði. Ljóst er þó að það fer nánast allt í fasteignagjöld að sögn Páls og þar að auki sé gert ráð fyrir 11 milljóna niðurskurði til viðbótar. „Það kannski hljómar lítið, en þegar þú ert búinn að skera fjórðu hverja krónu niður frá hruni og bæta nýtingu, eins og kallað er, öll fangelsi full, þá er þetta snúið.“Hvernig ferðu að því skera niður? „Ekki hugmynd. Ég er opinn fyrir uppástungum. Ég finn að það er skilningur meðal þingmanna úr flestum flokkum. Ég eiginlega geri ráð fyrir því að við fáum innspýtingu með fjárlögum komandi árs. Ég á erfitt með að trúa öðru. En ef ekkert gerist og þetta verður niðurstaðan, þá bara höldum við áfram. Þurfum þá að loka fleiri fangelsum, húsum, það verður bara að koma í ljós. Í mínum huga er það pólitískt mál hvar menn vilja loka fangelsum.“ Gríðarlega strangar reglur Oft hefur komið upp í umræðunni að fangar búi við lúxus í fangelsum. Er Kvíabryggja eins og lúxushótel? „Nei, alls ekki. Klefarnir eru ekki með rimlum, reyndar heldur ekki í nýjum fangelsum, það er öðruvísi stemming í opnu fangelsinu. Þau eru ekki afgirt – ekki á Kvíabryggju og ekki á Sogni. En það eru mjög strangar reglur sem menn þurfa að fara eftir. Grundvallaratriðið er frelsissviptingin. Þú ert fastur og ef þú ferð, eins og tveir pjakkar gerðu af Kvíabryggju fyrir ekki svo löngu, þá ferðu í lokað fangelsi og það vilja fæstir. Þess vegna hefur gengið vel. Það er sjaldgæft að menn strjúki, en reglurnar eru eins fyrir alla.“ Hagi fangar sér vel eiga þeir kost á að afplána í opnu fangelsi. „Við leggjum áherslu á það að sé gulrót í kerfinu. Að menn sjái tilgang í því að taka sig á og láta renna af sér, fara í nám eða vinnu, þannig að þeir geti tekið þátt í lífinu, því allir koma þeir út. Sem betur fer.“ Það var fjallað um á dögunum að Kaupþingstoppar komust fljótt í afplánun eftir að dómar féllu. Vildu margir meina að miðað við biðlista hefðu þeir fengið aðra meðferð en aðrir sem biðu afplánunar.Er gert upp á milli fólks? „Nei. Við erum með verklagsreglur og förum eftir þeim. Hún er svo spaugileg þessi umræða um efnahagsbrotamenn. Fyrst var talað um að þeir myndu aldrei fara inn, dómarnir myndu fyrnast og allt var vitlaust í bloggheimum. Svo fóru þeir inn og þá voru allir brjálaðir yfir því að þeir væru teknir á undan. Það er alveg sama hvað við gerum. Eini sénsinn sem við eigum er að gera hlutina eftir reglum og við gerum það við lítinn fögnuð almennt, þannig að það er mikilvægt að það sem við gerum þoli dagsljósið. Að við séum ekki að hygla ákveðnum mönnum en séum heldur ekki að taka þátt í hefnigirni almennings á einhverjum tímabilum.“Hefur hugsað um að kæra mútur Hefurðu lent í því að menn séu að reyna að búa í haginn fyrir sig áður en þeir koma inn, gera sér vistina bærilegri? „Já, ég hef reglulega lent í því að einstaklingar sem eiga eitthvað undir sér, og þá er ég alls ekki endilega að tala um tengt hruninu, heldur frá þeim tíma sem ég byrjaði þá reyna menn ýmislegt. Menn vilja reyna að komast snemma út og hafa það eins gott og hægt er, skiljanlega. En grundvallaratriðið er það og það er það sem ég segi öllum, ég ræði ekki málefni einstakra fanga við lögmenn né aðstandendur. Það eru allir fangar í mínum huga númer á blaði, vegna þess að mér ber að koma eins fram við alla og fara eftir reglunum. Jú, menn hafa reynt ýmislegt og það hefur nokkrum sinnum gerst, að ég hafi verið á nippinu með það að kæra til lögreglu mútur, en það hefur þó ekki farið þannig yfir línuna enn. En ég mun gera það ef til þess kemur. Ef borið verður fé á mig verður það kært.“Hefur þá verið ýjað að því að hægt sé að borga þér? „Já, svona farið snyrtilega í kringum það. Hvort vanti ekki hitt og þetta. Ég hef bent mönnum á það að auðvitað langi mig í peninga og allt það en ég er opinber starfsmaður og vinn eftir þeim reglum sem gilda. Vilji menn setja fjármagn í þetta, eða vildarvinir gera vel, fara þeir í gegnum Alþingi.“ Páll hefur einnig lent í því að vera hótað af föngum. „Já, já, ég held að við höfum flest sem vinnum í þessu kerfi lent í því, það á við fangaverði og mig líka. Við tökum mið af því að við erum að vinna í þessum geira og það smitar alveg í fjölskyldur okkar sem vinnum í fangelsiskerfinu. Það hefur komið maður heim til mín, ósáttur með mín störf. En við lögum okkur að þessu öll,“ segir hann.Var ráðist á þig? „Já, hann kom inn. Við náðum nú að tala hann til en þetta getur á stundum verið harkalegt.“ Páll segir mikla stéttaskiptingu vera innan fangelsismúranna.Er þetta eins og maður sér í bíómyndunum, eða þáttum eins og Orange Is the New Black? „Menn eru mishátt settir. Það er ekkert launungarmál og ég held það viti það allir að einstaklingar sem dæmdir eru fyrir brot gegn börnum eru lægst settir. Allavega þurfum við að hafa sérstakar gætur á þeim og gerum það. Ég segi ekki að þetta sé eins og þessi þáttur en það er ákveðin sterk menning inni í fangelsunum. Flestir fangar eru ágætis fólk. Hlutirnir eru ekki svartir eða hvítir.“ Hann segir fíkniefnaneyslu algenga. „Hún er algeng í fangelsum um allan heim. Þó það væri ekki annað þá getur maður sett sig í þau spor að sé fólk lokað inni í klefa vilji það deyfa sig.“ Hann segir það verkefni fangelsismálayfirvalda að reyna að koma í veg fyrir streymi fíkniefna inn í fangelsin en einnig að draga úr eftirspurninni með því að hjálpa þeim sem glíma við fíkn. Páll segir hlutfall fíkla í fangelsum hátt, um 50-70% „Það eru margir langt leiddir. Fíkniefni munu alltaf koma inn í fangelsi með einhverjum hætti. Þetta kemur með heimsóknargestum og með sendingum. Menn eiga almennt, ef þeir eru í lagi, rétt á heimsóknum frá nánum aðstandendum og vinum. Svo maður segi þetta hreint út, þá kemur þetta til dæmis úr einum endaþarmi og fer yfir í annan. Það fer ekki alltaf mikið fyrir þessu, það er ekki lykt af öllum fíkniefnum. Við gætum komið í veg fyrir þetta með því að banna heimsóknir en það yrði hryllilegt. Það dettur engum heilvita manni í hug.“Þynging refsinga virkar ekki Miðað við þann fjölda fanga sem eru fíklar, erum við ekki að gera eitthvað rangt? „Ég held að við náum aldrei tökum á þessu en deili þeirri skoðun með mörgum að þynging refsinga almennt skili ekki því sem menn ætla sér. Ég held það hafi ekki afgerandi áhrif þegar þú ert að velta fyrir þér að flytja inn dóp hvort þú farir í 10 eða 12 ára fangelsi. Almennt er ég ekki hrifinn af þungum refsingum. Ég sé alveg, hafandi verið í þessu kerfi lengi, að það er ekki gott að loka menn inni lengi. Maðurinn kemur skemmdari út eftir því sem hann er lengur inni.“ Hann segir pælinguna um afglæpavæðingu fíkniefna áhugaverða. „Þá sérstaklega í tengslum við einstaklinga sem eru langt leiddir fíklar og eru að stela fyrir dópi. Ég held að það séu ekki glæpamenn. Ég held það þurfi að greina á milli þeirra sem eru langt leiddir fíklar og eru í brotum sem eru tengd neyslunni og þeirra sem eru að skipuleggja allt heila klabbið.“ Páll segir marga sérfróða farna að velta fyrir sér möguleikanum á afglæpavæðingu. „Þetta fíkniefnastríð eins og það er háð í dag er ekki að virka. Það hefur ekkert breyst nema efnin eru harðari.“ Páll segir veruleikann innan fangelsanna hafa harðnað eftir því sem dómar hafi þyngst. Nú sitji í fangelsum þeir sem hlotið hafa þyngri dóma. „Það eru engir inni fyrir ítrekaðan ölvunarakstur. Það er liðin tíð, þeir eru annaðhvort í samfélagsþjónustu eða á biðlistanum eða hvort tveggja.“ Það hefur færst í aukana að fólk sinni samfélagsþjónustu í stað þess að sitja inni. Þeir sem hljóta allt að níu mánaða fangelsisvist geta afplánað dóminn með samfélagsvinnu. „Á hverjum tíma eru á bilinu 150-170 manns að vinna ólaunaða vinnu í þágu samfélagsins. Hjá Rauða krossinum, íþróttafélögum, sambýlum og kirkjunni meðal annars. Þau eru að vinna störf sem ella yrðu ekki unnin og eru að gera gagn um leið og þau eru að afplána fangelsisvist.“ Þó að starfið geti reynt á með niðurskurði og öllu sem fylgir segir Páll það sannarlega vera þess virði. „Það sem skilar mestu er einmitt þegar maður fer í Kringluna og hittir þar menn og konur sem hafa náð sér og eru hætt í ruglinu. Maður sér að það er séns.“Skrautfiskarækt og ástin Páll á sér líf fyrir utan heim fangelsanna og hefur nýlegt ástarsamband hans við fjölmiðlakonuna Mörtu Maríu Jónasdóttur vakið nokkra athygli. „Fólk hefur einhverra hluta vegna áhuga á þessu, ég veit ekki alveg af hverju,“ segir hann brosandi. „Hún tók viðtal við mig og ég sá bara að þetta var býsna áhugaverð manneskja,“ segir Páll um það hvernig þau kynntust en hann bauð henni í göngutúr í framhaldinu. Áhugamálin eru af fjölbreyttum toga. Páll er áhugasamur um þungarokk og hefur meðal annars elt hljómsveitina Rammstein á tónleika víða um heim. Svo á hann sér annað áhugamál sem kom blaðamönnum spánskt fyrir sjónir. „Ég rækta skrautfiska,“ segir hann örlítið vandræðalegur. „Ég byrjaði á þessu þegar ég var 9 ára. Það er rosa menning í þessu, þetta eru engir gullfiskar,“ segir hann hlæjandi. „Mér líður hvergi eins vel og í dýrabúð. Þegar ég þarf andlega aðstoð þá fer ég í Fiskó.“ Páll er ekki mjög duglegur í skrautfiskaræktuninni í dag miðað við það sem áður var. „Í dag er þetta hálf eymdarlegt, ég er með eitt 300 lítra búr. Þegar mest var þegar ég var krakki, þá fékk ég sveppi í lungun, þá var ég með tuttugu búr í herberginu og það voru bara að vaxa á mig tálkn.“ Mest lesið Setti ofan í við Ingu: „Vert þú ekki með þennan skæting við mig“ Innlent Lokað um Þrengsli og vegir víða á óvissustigi Veður „Þetta er farið að að bera meira keim af einelti en löglegri stjórnsýslu” Innlent Brenndi konu til bana í neðanjarðarlest í New York Erlent Flæddi inn í hús á Arnarnesi Innlent Hvít jól, gular viðvaranir og varasamt ferðaveður Innlent Lyklaskipti í máli og myndum: „Þetta er voldugur lykill“ Innlent Nýir ráðherra ætli að vinna saman og ekki loka sig af Innlent Missti stjórn á bílnum og endaði inni í garði Innlent Ný ríkisstjórn fundar í dag Innlent Fleiri fréttir Egill Þór er látinn Nýir ráðherra ætli að vinna saman og ekki loka sig af Flæddi inn í hús á Arnarnesi Ný ríkisstjórn fundar í dag „Þetta er farið að að bera meira keim af einelti en löglegri stjórnsýslu” Missti stjórn á bílnum og endaði inni í garði Lyklaskipti í máli og myndum: „Þetta er voldugur lykill“ Hvít jól, gular viðvaranir og varasamt ferðaveður Nýr flugvöllur opnar nýjar dyr fyrir Suður-Grænland Tvö tröllvaxin mál og sækja eigi tekjurnar í fiskinn „Heimsins furðulegasti fiskur“ afhentur í fjármálaráðuneytinu Kirkjutröppurnar opnaðar að nýju og hiti í hverju þrepi Setti ofan í við Ingu: „Vert þú ekki með þennan skæting við mig“ Umferðartafir vegna bílveltu á Mýrum Lyklaskipti og afmæli elsta Íslendingsins Segir Helga Magnús óhæfan til að gegna embættinu „Þannig að jólin komu snemma hjá mér“ „Ég fæ ekki séð hvaða rugl þetta er“ Fyrsti læknirinn í heilbrigðisráðuneytinu Það bráðvantar börn á leikskólann á Hvanneyri „Þú veist að ég er sú sem að passar best hérna inn“ „Ein allra besta jólagjöfin“ „Ég veit að þér mun sömuleiðis líða vel hér“ Skortur á sjúkragæslu á viðburðum hafi áhrif á neyðarþjónustu Eftirliti á viðburðum ábótavant og skynsemi í orkumálum Vegir víða hálir á morgun og blint á fjallvegum Stjórnarleiðtogar sitja fyrir svörum á Sprengisandi „Afskaplega róleg“ nótt hjá lögreglumönnum Þakklæti, auðmýkt, rok og söngur ríkisstjórnarinnar „Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum“ Sjá meira
„Við vitum oft ekkert um einstaklinga sem eru að koma til okkar í gæsluvarðhald. Þeir gefa upp vitlaus nöfn, kennitölur. Stundum fólk sem hefur engin tengsl við landið. En um leið og við öflum okkur vitneskju um hagi einstaklings, heilsufar eða annað, þá látum við viðeigandi stjórnvöld vita. Gallinn er sá að á Íslandi er lítið við þessu hægt að gera. Mikið veikt fólk, sem þó er metið sakhæft, er bara í fangelsi. Fangaverðir eru hvorki ráðnir til að sinna geðveiku fólki eða öðrum mikið veikum. Ekki dettur okkur í hug að fangaverðir geri að fótbrotnum manni,“ segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri. Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að þroskahamlaður hollenskur maður sæti í gæsluvarðhaldi, grunaður um stórfellt fíkniefnasmygl. Í kjölfarið var fjallað um úrræðaleysi yfirvalda þegar kæmi að því að finna vistun þegar slíkt kæmi upp. „Mönnum dettur það einhverra hluta vegna í hug að fangaverðir eigi að sinna fólki sem er andlega veikt. Kerfið okkar er þannig að fangar eru að þessu leyti annars flokks þegnar. Það er ekki bara ég, einhver krumpaður embættismaður, sem er að segja það heldur er þetta það sem pyntingarnefnd Evrópuráðsins hefur sagt og fleiri. En svo kemur þetta alltaf jafn ofboðslega á óvart þegar þessi mál koma upp og þau eru aldrei leyst nema þau rati í fjölmiðla. Þetta er raunveruleikinn.“Mikill niðurskurður Páll Winkel er lögfræðingur og hefur sinnt starfi fangelsismálastjóra um átta ára skeið. Tvítugur fór hann að vinna í lögreglunni meðfram náminu. Hann starfaði fyrir stéttarfélag lögreglumanna og hjá ríkislögreglustjóra áður en hann varð fangelsismálastjóri. Hann hefur lifað og hrærst í fangelsunum í rúma tvo áratugi. Páll er hálfur Dani, afleiðing ágæts samnorræns samstarfs, eins og hann segir sjálfur, en ólst að mestu leyti upp hjá móður sinni á Íslandi. Hann segir harkið allt þess virði þegar hann hittir fyrrverandi fanga sem hafa snúið við blaðinu. Álagið sé gríðarlegt, og enn frekari niðurskurður blasi við, þrátt fyrir að stofnunin hafi þegar skorið niður fjórðu hverja krónu frá hruni.Óásættanlegt ástand „Það eru á bilinu enginn og upp í fimm, sex fangar á hverjum tíma sem eiga við vandamál, til dæmis þroskaskerðingu, að stríða, og ættu ekki að vera í fangelsi. Þeir eru nokkuð margir núna og það er hrikalegt álag.“ Hann segir dæmi þess að menn fari í geðrof inni í fangelsunum. „En ég undirstrika að það er ekkert samasemmerki á milli geðveiki og hættulegrar hegðunar, en þegar hittist þannig á að viðkomandi er andlega veikur og í mikilli neyslu fíkniefna, með ofbeldisfullan feril að auki – það er ekki góð blanda.“ Hann segir sjaldgæft að fangar fái inni á geðdeild. „Enda er geðdeild að taka við alls konar fólki – frá ungu fólki sem líður illa yfir í gamalt fólk sem er þunglynt og allt þar á milli. Ég hef fullan skilning á því að kolbrjálaður fangi, svo maður tali íslensku, passi ekki alveg inn.“ Páll segir vanta lokaða deild þar sem öryggisskilyrði séu uppfyllt. „Svoleiðis er það ekki og hefur ekki verið. Það er hins vegar þannig að þegar eitthvað gerist, eins og fyrir nokkuð mörgum árum, þá var maður að ljúka afplánun og við vissum öll að hann myndi gera eitthvað rosalegt þegar hann kæmi út. Hann drap annan mann. Þegar þetta gerðist varð tímabundið pólitískt vinsælt að setja fjármagn í deild á Landspítalanum. Síðan breyttist eðli þeirrar deildar og eftir sitjum við í sömu stöðu og áður.“ Hann segir fanga fá inni á geðdeildum í örfáum neyðartilvikum. „Ástæðan fyrir því að ég kem fram og segi frá hlutunum eins og þeir eru, er að við erum búin að vera að horfa upp á það að fangar hafa fyrirfarið sér í afplánun og skömmu eftir afplánun. Það er óásættanlegt. Það er ekki nóg að segja að þetta gerist líka í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég væri alveg sáttur ef við værum að gera allt sem samfélagið getur gert. Við erum ekki að gera það.“Hvað stendur í vegi? „Aðallega pólitískur vilji, því þetta kostar. Þegar menn eru að gera langtímaáætlanir í málum þá vill fólk sjá árangur fljótt en það er ekki raunin í þessu. Það tekur tíma að græða á því að það séu færri í fangelsum, því það kostar jú peninga. Þessi betrun sem þarf að verða tekur mörg ár, meira en kjörtímabil. Það er alls ekkert sáluhjálparatriði hjá mér á vegum hvers það er. Ég vil bara að veikir menn fái þjónustu.“Missa starfsfólk vegna álags Hann segir þetta skapa álag. „Ég er að missa starfsfólk sem ég hef illa efni á að missa. Svona mannauður er ekki eitthvað sem þú tínir upp af götunni. Það þarf sérstaka týpu af fólki til að vinna sem fangaverðir, menn þurfa að halda uppi lögum og reglu en ekki síður hafa brjóstvit og manngæsku.“ Hann segir ástandið hafa versnað. „Refsingar hafa þyngst heiftarlega. Biðlistar myndast. Strax þegar þessi biðlisti var að fara af stað létum við vita af því í öllum þingflokkum sem nenntu að hlusta. Þeir einu sem hafa alltaf staðið með okkur er dómsmálaráðuneytið og nú innanríkisráðuneytið, það er fullur skilningur, en það bara nær ekki lengra.“ Hann segir þetta líka snúast um öryggi fangavarða. „Fólk er langþreytt. Menn eru kannski að vinna einir innan um tíu fanga, þar af helmingurinn mjög illa staddur og hinn í einangrun – lokaður inni 23 tíma á sólarhring. Þetta er hrikalegt. Þetta er spurning um öryggi starfsmanna, vellíðan þeirra og ekki síður um öryggi okkar skjólstæðinga.“Bitnar á öllum Til þess að rétta stöðuna segir Páll að leiðrétta þurfi niðurskurðinn á þessu ári og að auki þurfi 100 milljóna innspýtingu á næsta ári. Ekki hafi verið hægt að mennta fangaverði lengi vegna fjárskorts. „Við þurfum að geta sett fram neyðarlista, geta tekið inn fólk í afleysingar. Við þurfum að hafa lágmarks öryggisatriði í lagi. Við þurfum að hætta að skera niður það sem fangarnir þurfa. Útivist, heimsóknir, nám, vinnu og svo framvegis. Við verðum að halda þessu úti því þetta er ástand sem verður erfiðara, mönnum líður verr. Það endar illa. Við erum gagnrýnd fyrir ýmislegt, til dæmis vorum við að loka svokölluðu Barnakoti um helgar, sem er aðstaða fyrir börn fanga til að koma í heimsóknir. Það er ekki vegna þess að við höfum gaman af því, heldur af því að við eigum ekki fyrir því.“Alltof margir bíða afplánunar Tæplega 500 manns eru á biðlista núna til þess að hefja afplánun en 155 afplánunarpláss eru í fangelsum landsins. „Þetta er ofsalega skrítin tilfinning. Það er ekki lengra síðan en sex sjö ár að menn fóru í afplánun þegar þeir höfðu fengið dóm. Núna, þessum árum seinna, erum við að taka fólk inn til afplánunar sem var dæmd fyrir fjórum, fimm árum. Hætt í dópi og vitleysu, búið að mennta sig, komið með börn og í vinnu. Þá bankar Fangelsismálastofnun upp á og segir, heyrðu þú ert að fara í fangelsi og við þurfum að taka þig inn því dómurinn er að fyrnast. Þetta er geggjað ástand,“ segir Páll. Hann segir það gerast í miklum mæli að dómar fyrnist. „Það eru þeir sem hafa hegðað sér hvað best. Við þurfum að forgangsraða og taka þá sem eru áfram í brotum og þá sem hafa tveggja ára refsingu eða meira.“ Hann segir þetta vera þvert á allar kenningar um tilgang refsingar. „Til þess að refsing virki þarf hún að koma í beinu framhaldi af brotinu. Grunnlögmál hegðunar. Sjáum með börnin okkar, það þýðir ekki að skamma þau mörgum árum seinna eftir að þau gera eitthvað af sér. Það þarf líka að gefa mönnum tækifæri til þess að taka aftur þátt í samfélagi mannanna, þetta er bara rugl.“ Áætlað er að fangelsið á Hólmsheiði verði tilbúið í janúar og starfsemi þar geti hafist um páska. Páll segir það breyta miklu. „Hegningarhúsið og Kvennafangelsið í Kópavogi eru fangelsi sem hafa verið rekin á undanþágum heilbrigðisyfirvalda um áratugaskeið. Fangarnir eru að fara úr óforsvaranlegum aðstæðum yfir í fyrsta fangelsið sem hannað er frá grunni sem fangelsi síðan 1871 á Íslandi.“Langtímaaðstaða fyrir konur í afplánun verður betri en verið hefur „Þarna verður heimsóknaríbúð þar sem börn fanga geta verið hjá aðstandendum. Þarna er töluvert pláss fyrir einangrunarfanga. Öryggismál eru í lagi.“ Auk þess bætast um 30 pláss við, þótt tekið sé tillit til lokana annarra fangelsa. „En ef við ekki höfum fjármagn til þess að reka það breytir það kannski ekki svo miklu. En ég er bjartsýnn.“ Gert er ráð fyrir 70 milljónum aukalega í fjárlögum næsta árs fyrir fangelsið á Hólmsheiði. Ljóst er þó að það fer nánast allt í fasteignagjöld að sögn Páls og þar að auki sé gert ráð fyrir 11 milljóna niðurskurði til viðbótar. „Það kannski hljómar lítið, en þegar þú ert búinn að skera fjórðu hverja krónu niður frá hruni og bæta nýtingu, eins og kallað er, öll fangelsi full, þá er þetta snúið.“Hvernig ferðu að því skera niður? „Ekki hugmynd. Ég er opinn fyrir uppástungum. Ég finn að það er skilningur meðal þingmanna úr flestum flokkum. Ég eiginlega geri ráð fyrir því að við fáum innspýtingu með fjárlögum komandi árs. Ég á erfitt með að trúa öðru. En ef ekkert gerist og þetta verður niðurstaðan, þá bara höldum við áfram. Þurfum þá að loka fleiri fangelsum, húsum, það verður bara að koma í ljós. Í mínum huga er það pólitískt mál hvar menn vilja loka fangelsum.“ Gríðarlega strangar reglur Oft hefur komið upp í umræðunni að fangar búi við lúxus í fangelsum. Er Kvíabryggja eins og lúxushótel? „Nei, alls ekki. Klefarnir eru ekki með rimlum, reyndar heldur ekki í nýjum fangelsum, það er öðruvísi stemming í opnu fangelsinu. Þau eru ekki afgirt – ekki á Kvíabryggju og ekki á Sogni. En það eru mjög strangar reglur sem menn þurfa að fara eftir. Grundvallaratriðið er frelsissviptingin. Þú ert fastur og ef þú ferð, eins og tveir pjakkar gerðu af Kvíabryggju fyrir ekki svo löngu, þá ferðu í lokað fangelsi og það vilja fæstir. Þess vegna hefur gengið vel. Það er sjaldgæft að menn strjúki, en reglurnar eru eins fyrir alla.“ Hagi fangar sér vel eiga þeir kost á að afplána í opnu fangelsi. „Við leggjum áherslu á það að sé gulrót í kerfinu. Að menn sjái tilgang í því að taka sig á og láta renna af sér, fara í nám eða vinnu, þannig að þeir geti tekið þátt í lífinu, því allir koma þeir út. Sem betur fer.“ Það var fjallað um á dögunum að Kaupþingstoppar komust fljótt í afplánun eftir að dómar féllu. Vildu margir meina að miðað við biðlista hefðu þeir fengið aðra meðferð en aðrir sem biðu afplánunar.Er gert upp á milli fólks? „Nei. Við erum með verklagsreglur og förum eftir þeim. Hún er svo spaugileg þessi umræða um efnahagsbrotamenn. Fyrst var talað um að þeir myndu aldrei fara inn, dómarnir myndu fyrnast og allt var vitlaust í bloggheimum. Svo fóru þeir inn og þá voru allir brjálaðir yfir því að þeir væru teknir á undan. Það er alveg sama hvað við gerum. Eini sénsinn sem við eigum er að gera hlutina eftir reglum og við gerum það við lítinn fögnuð almennt, þannig að það er mikilvægt að það sem við gerum þoli dagsljósið. Að við séum ekki að hygla ákveðnum mönnum en séum heldur ekki að taka þátt í hefnigirni almennings á einhverjum tímabilum.“Hefur hugsað um að kæra mútur Hefurðu lent í því að menn séu að reyna að búa í haginn fyrir sig áður en þeir koma inn, gera sér vistina bærilegri? „Já, ég hef reglulega lent í því að einstaklingar sem eiga eitthvað undir sér, og þá er ég alls ekki endilega að tala um tengt hruninu, heldur frá þeim tíma sem ég byrjaði þá reyna menn ýmislegt. Menn vilja reyna að komast snemma út og hafa það eins gott og hægt er, skiljanlega. En grundvallaratriðið er það og það er það sem ég segi öllum, ég ræði ekki málefni einstakra fanga við lögmenn né aðstandendur. Það eru allir fangar í mínum huga númer á blaði, vegna þess að mér ber að koma eins fram við alla og fara eftir reglunum. Jú, menn hafa reynt ýmislegt og það hefur nokkrum sinnum gerst, að ég hafi verið á nippinu með það að kæra til lögreglu mútur, en það hefur þó ekki farið þannig yfir línuna enn. En ég mun gera það ef til þess kemur. Ef borið verður fé á mig verður það kært.“Hefur þá verið ýjað að því að hægt sé að borga þér? „Já, svona farið snyrtilega í kringum það. Hvort vanti ekki hitt og þetta. Ég hef bent mönnum á það að auðvitað langi mig í peninga og allt það en ég er opinber starfsmaður og vinn eftir þeim reglum sem gilda. Vilji menn setja fjármagn í þetta, eða vildarvinir gera vel, fara þeir í gegnum Alþingi.“ Páll hefur einnig lent í því að vera hótað af föngum. „Já, já, ég held að við höfum flest sem vinnum í þessu kerfi lent í því, það á við fangaverði og mig líka. Við tökum mið af því að við erum að vinna í þessum geira og það smitar alveg í fjölskyldur okkar sem vinnum í fangelsiskerfinu. Það hefur komið maður heim til mín, ósáttur með mín störf. En við lögum okkur að þessu öll,“ segir hann.Var ráðist á þig? „Já, hann kom inn. Við náðum nú að tala hann til en þetta getur á stundum verið harkalegt.“ Páll segir mikla stéttaskiptingu vera innan fangelsismúranna.Er þetta eins og maður sér í bíómyndunum, eða þáttum eins og Orange Is the New Black? „Menn eru mishátt settir. Það er ekkert launungarmál og ég held það viti það allir að einstaklingar sem dæmdir eru fyrir brot gegn börnum eru lægst settir. Allavega þurfum við að hafa sérstakar gætur á þeim og gerum það. Ég segi ekki að þetta sé eins og þessi þáttur en það er ákveðin sterk menning inni í fangelsunum. Flestir fangar eru ágætis fólk. Hlutirnir eru ekki svartir eða hvítir.“ Hann segir fíkniefnaneyslu algenga. „Hún er algeng í fangelsum um allan heim. Þó það væri ekki annað þá getur maður sett sig í þau spor að sé fólk lokað inni í klefa vilji það deyfa sig.“ Hann segir það verkefni fangelsismálayfirvalda að reyna að koma í veg fyrir streymi fíkniefna inn í fangelsin en einnig að draga úr eftirspurninni með því að hjálpa þeim sem glíma við fíkn. Páll segir hlutfall fíkla í fangelsum hátt, um 50-70% „Það eru margir langt leiddir. Fíkniefni munu alltaf koma inn í fangelsi með einhverjum hætti. Þetta kemur með heimsóknargestum og með sendingum. Menn eiga almennt, ef þeir eru í lagi, rétt á heimsóknum frá nánum aðstandendum og vinum. Svo maður segi þetta hreint út, þá kemur þetta til dæmis úr einum endaþarmi og fer yfir í annan. Það fer ekki alltaf mikið fyrir þessu, það er ekki lykt af öllum fíkniefnum. Við gætum komið í veg fyrir þetta með því að banna heimsóknir en það yrði hryllilegt. Það dettur engum heilvita manni í hug.“Þynging refsinga virkar ekki Miðað við þann fjölda fanga sem eru fíklar, erum við ekki að gera eitthvað rangt? „Ég held að við náum aldrei tökum á þessu en deili þeirri skoðun með mörgum að þynging refsinga almennt skili ekki því sem menn ætla sér. Ég held það hafi ekki afgerandi áhrif þegar þú ert að velta fyrir þér að flytja inn dóp hvort þú farir í 10 eða 12 ára fangelsi. Almennt er ég ekki hrifinn af þungum refsingum. Ég sé alveg, hafandi verið í þessu kerfi lengi, að það er ekki gott að loka menn inni lengi. Maðurinn kemur skemmdari út eftir því sem hann er lengur inni.“ Hann segir pælinguna um afglæpavæðingu fíkniefna áhugaverða. „Þá sérstaklega í tengslum við einstaklinga sem eru langt leiddir fíklar og eru að stela fyrir dópi. Ég held að það séu ekki glæpamenn. Ég held það þurfi að greina á milli þeirra sem eru langt leiddir fíklar og eru í brotum sem eru tengd neyslunni og þeirra sem eru að skipuleggja allt heila klabbið.“ Páll segir marga sérfróða farna að velta fyrir sér möguleikanum á afglæpavæðingu. „Þetta fíkniefnastríð eins og það er háð í dag er ekki að virka. Það hefur ekkert breyst nema efnin eru harðari.“ Páll segir veruleikann innan fangelsanna hafa harðnað eftir því sem dómar hafi þyngst. Nú sitji í fangelsum þeir sem hlotið hafa þyngri dóma. „Það eru engir inni fyrir ítrekaðan ölvunarakstur. Það er liðin tíð, þeir eru annaðhvort í samfélagsþjónustu eða á biðlistanum eða hvort tveggja.“ Það hefur færst í aukana að fólk sinni samfélagsþjónustu í stað þess að sitja inni. Þeir sem hljóta allt að níu mánaða fangelsisvist geta afplánað dóminn með samfélagsvinnu. „Á hverjum tíma eru á bilinu 150-170 manns að vinna ólaunaða vinnu í þágu samfélagsins. Hjá Rauða krossinum, íþróttafélögum, sambýlum og kirkjunni meðal annars. Þau eru að vinna störf sem ella yrðu ekki unnin og eru að gera gagn um leið og þau eru að afplána fangelsisvist.“ Þó að starfið geti reynt á með niðurskurði og öllu sem fylgir segir Páll það sannarlega vera þess virði. „Það sem skilar mestu er einmitt þegar maður fer í Kringluna og hittir þar menn og konur sem hafa náð sér og eru hætt í ruglinu. Maður sér að það er séns.“Skrautfiskarækt og ástin Páll á sér líf fyrir utan heim fangelsanna og hefur nýlegt ástarsamband hans við fjölmiðlakonuna Mörtu Maríu Jónasdóttur vakið nokkra athygli. „Fólk hefur einhverra hluta vegna áhuga á þessu, ég veit ekki alveg af hverju,“ segir hann brosandi. „Hún tók viðtal við mig og ég sá bara að þetta var býsna áhugaverð manneskja,“ segir Páll um það hvernig þau kynntust en hann bauð henni í göngutúr í framhaldinu. Áhugamálin eru af fjölbreyttum toga. Páll er áhugasamur um þungarokk og hefur meðal annars elt hljómsveitina Rammstein á tónleika víða um heim. Svo á hann sér annað áhugamál sem kom blaðamönnum spánskt fyrir sjónir. „Ég rækta skrautfiska,“ segir hann örlítið vandræðalegur. „Ég byrjaði á þessu þegar ég var 9 ára. Það er rosa menning í þessu, þetta eru engir gullfiskar,“ segir hann hlæjandi. „Mér líður hvergi eins vel og í dýrabúð. Þegar ég þarf andlega aðstoð þá fer ég í Fiskó.“ Páll er ekki mjög duglegur í skrautfiskaræktuninni í dag miðað við það sem áður var. „Í dag er þetta hálf eymdarlegt, ég er með eitt 300 lítra búr. Þegar mest var þegar ég var krakki, þá fékk ég sveppi í lungun, þá var ég með tuttugu búr í herberginu og það voru bara að vaxa á mig tálkn.“
Mest lesið Setti ofan í við Ingu: „Vert þú ekki með þennan skæting við mig“ Innlent Lokað um Þrengsli og vegir víða á óvissustigi Veður „Þetta er farið að að bera meira keim af einelti en löglegri stjórnsýslu” Innlent Brenndi konu til bana í neðanjarðarlest í New York Erlent Flæddi inn í hús á Arnarnesi Innlent Hvít jól, gular viðvaranir og varasamt ferðaveður Innlent Lyklaskipti í máli og myndum: „Þetta er voldugur lykill“ Innlent Nýir ráðherra ætli að vinna saman og ekki loka sig af Innlent Missti stjórn á bílnum og endaði inni í garði Innlent Ný ríkisstjórn fundar í dag Innlent Fleiri fréttir Egill Þór er látinn Nýir ráðherra ætli að vinna saman og ekki loka sig af Flæddi inn í hús á Arnarnesi Ný ríkisstjórn fundar í dag „Þetta er farið að að bera meira keim af einelti en löglegri stjórnsýslu” Missti stjórn á bílnum og endaði inni í garði Lyklaskipti í máli og myndum: „Þetta er voldugur lykill“ Hvít jól, gular viðvaranir og varasamt ferðaveður Nýr flugvöllur opnar nýjar dyr fyrir Suður-Grænland Tvö tröllvaxin mál og sækja eigi tekjurnar í fiskinn „Heimsins furðulegasti fiskur“ afhentur í fjármálaráðuneytinu Kirkjutröppurnar opnaðar að nýju og hiti í hverju þrepi Setti ofan í við Ingu: „Vert þú ekki með þennan skæting við mig“ Umferðartafir vegna bílveltu á Mýrum Lyklaskipti og afmæli elsta Íslendingsins Segir Helga Magnús óhæfan til að gegna embættinu „Þannig að jólin komu snemma hjá mér“ „Ég fæ ekki séð hvaða rugl þetta er“ Fyrsti læknirinn í heilbrigðisráðuneytinu Það bráðvantar börn á leikskólann á Hvanneyri „Þú veist að ég er sú sem að passar best hérna inn“ „Ein allra besta jólagjöfin“ „Ég veit að þér mun sömuleiðis líða vel hér“ Skortur á sjúkragæslu á viðburðum hafi áhrif á neyðarþjónustu Eftirliti á viðburðum ábótavant og skynsemi í orkumálum Vegir víða hálir á morgun og blint á fjallvegum Stjórnarleiðtogar sitja fyrir svörum á Sprengisandi „Afskaplega róleg“ nótt hjá lögreglumönnum Þakklæti, auðmýkt, rok og söngur ríkisstjórnarinnar „Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum“ Sjá meira