Skoðun

Biti þeirra sem best hafa það

Valgerður Bjarnadóttir skrifar
Fjármálaráðherrann sagði í vikunni að hann væri orðinn talsvert leiður á því að fólk teldi sanngjarnt að þær stéttir sem nú eiga í samningaviðræðum við ríkisvaldið fái kjarabætur í takt við það sem aðrar stéttir hafa fengið.

Sjálf er ég orðin hundleið á því að ráðherrar, Seðlabankinn, Samtök atvinnulífisins og annað kerfisfólk varpa ábyrgðinni á stöðugleika í efnahagskerfinu á launþega í landinu, sérstaklega þá sem lægri hafa launin.

Árið 2013 samdi launafólk um það sem kallað var ábyrgar launahækkanir. Í ljós kom að í fyrirtækjum landsins fengu stjórnendur og millistjórnendur miklu meiri launahækkanir. Stjórnendur einfaldlega hækkuðu launin sín. Hækkanir millistjórnenda kallast launaskrið, væntanlega til að hafa í við stjórnendur.

Nú er aftur hætta á launaskriði, segir kerfisliðið, núna vegna þess að þeir sem lægri hafa launin fá sanngjarna launahækkun. Af hverju er þetta svona? Svar: vegna þess að kerfisliðið vill ekki breyta kerfinu.

Ríkisstjórnin hefur lækkað eða afnumið skatta og gjöld á þá sem best hafa það í þessu landi. Fyrir þá peninga hefði verið hægt að hækka laun opinberra starfsmanna.

Stjórnendur fyrirtækja bera ábyrgð á því að reka fyrirtækin, þeir bera ábyrgð á því að greiða launþegum laun sem hægt er lifa sæmilega af. Stjórnendur bera ábyrgð á að fyrirtækjareksturinn sé þannig að framleiðni sé viðunandi. Stjórnendur bera ábyrgð á framleiðninni, ekki launþegarnir. Hingað til hafa menn komist upp með að varpa af sér allri ábyrgð, einmitt þeirri ábyrgð sem þeir segja að sé ástæða þess að þeir eigi skilin há laun.

Launþegar þurfa að fá stærri bita af kökunni, um það snýst málið. Það þýðir auðvitað að biti þeirra sem best hafa það minnkar, en það er allt í lagi! Hann verður ágætlega stór eftir sem áður. – Málið snýst ekki um höfrungahlaup, heldur uppskurð á kerfinu. Þegar uppskurðinum er lokið skulum við tala um nýtt vinnumarkaðsmódel sem fjármálaráðherrann og Samtök atvinnulífsins kalla eftir.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×