Enski boltinn

Klopp: Ekki sáttur við innflutningsgjöfina mína

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í gærkvöldi.
Jürgen Klopp á hliðarlínunni í gærkvöldi. vísir/getty
Jürgen Klopp tókst ekki að vinna sinn fyrsta leik sem knattspyrnustjóri Liverpool í gærkvöldi þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Rubin Kazan frá Rússlandi í þriðju leikviku riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Liverpool skoraði þó fyrsta markið undir hans stjórn, en það gerði Emre Can þegar hann jafnaði leikinn eftir að gestirnir komust yfir snemma leiks.

Klopp vildi fá sigur í innflutningsgjöf á Anfield þar sem þetta var hans fyrsti heimaleikur. Þó það tókst ekki var hann ánægður með frammistöðu liðsins.

„Þegar þú kemur inn í nýtt hús í fyrsta sinn færðu vanalega gjöf. Ég var ekki alveg nógu sáttur við gjöfina sem ég fékk í kvöld en þetta var bara fyrsti heimaleikurinn. Ég kem aftur,“ sagði Klopp eftir leikinn í gærkvöldi.

„Þetta var engin snilld hjá okkur en alls ekki versti dagurinn í mínu lífi. Þetta var áhugaverður leikur gegn góðu Rubin-liði sem allir sjá að er gott og vel spilandi.“

„Við áttum okkar stundir og skutum í stöngina undir lokin. Ég myndi segja að 98 prósent hjá okkur hafi verið í lagi. Þetta var ekki fullkomið en þessi tvö prósent voru vandamálið í kvöld,“ sagði Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×