Enski boltinn

Sló í gegn með Swansea fyrir þremur árum en er nú á leiðinni í 4. deildina á Spáni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Michu er á niðurleið.
Michu er á niðurleið. vísir/getty
Einn gleymdasti framherji Evrópuboltans, Spánverjinn Michu, er á leið í spænsku fjórðu deildina aðeins þremur árum eftir að hann sló í gegn á Englandi.

Þessi öflugi framherji gekk í raðir Swansea frá Rayo Vallecano sumarið 2012 og sló í gegn undir stjórn Michaels Laudrups. Hann skoraði 18 mörk í 35 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og 22 mörk í öllum keppnum. Með Michu sem sinn besta mann vann Swansea deildabikarinn á fyrra tímabili kappans hjá velska liðinu.

Spánverjinn var mikið meiddur leiktíðina eftir það og skoraði aðeins sex mörk í öllum keppnum og tók ekki þátt í nema 17 leikjum í úrvalsdeildinni. Garry Monk, sem tók við stjórnartaumunum hjá Swansea, vildi ekkert með Michu hafa og þráði að koma stórum launapakka hans frá félaginu.

Rafael Benítez fékk hann að láni til Napoli á síðustu leiktíð þar sem hann var einnig mikið meiddur og spilaði ekki nema fimm leiki í heildina.

Greint var frá því í sumar að Michu væri að íhuga að leggja skóna á hilluna 29 ára gamall, en nú segir spænska íþróttablaðið AS frá því að hann ætli að ganga í raðir Langreo í fjórðu deild Spánar.

Michu hefur æft með liðinu, sem er í fimmta sæti deildarinnar, undanfarna mánuði. Bróðir hans, Hernan Perez, er framkvæmdastjóri Langreo. Swansea á enn eftir að gefa grænt ljós á félagaskiptin en velska liðið er enn með hann á samning og vill fá eitthvað fyrir hann.

Búist er við að Michu verði ekki lengur en fram í janúar hjá Langreo og reyni þá að komast að hjá stærra liði eftir að hann kemst í gegnum meiðslin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×