Formúla 1

Rosberg á ráspól í rigningunni í Texas

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Nico Rosberg blés lífi í heimsmeistarakeppni ökumanna með því að ná ráspól.
Nico Rosberg blés lífi í heimsmeistarakeppni ökumanna með því að ná ráspól. Vísir/Getty
Nico Rosberg á Mercedes náði ráspól, liðsfélagi hans Lewis Hamilton varð annar og Daniel Ricciardo varð þriðji á Red Bull.

Mikil rigning var á brautinni þegar tímatakan hófst en ökumenn voru snöggir út enda óvíst hvort aðstæður myndu batna eða versna.

Fyrsta lotan var stöðvuð með rauðum flöggum þegar Carlos Sainz missti stjórn á Toro Rosso bílnum og endaði malargryfjunni með viðkomu á varnarvegg.

Það var því nóg að gera fyrir vélvirkja Toro Rosso liðsins að koma bíl Sainz í lag fyrir keppnina. Framendinn var illa farinn og framfjöðrunin brotin.

Þegar tímatakan hófst á ný lá ökumönnum mikið á að setja tíma til að vera með öruggan tíma á töflunni. Brautin þornaði þó eftir því sem á leið.

Mikil tilþrif litu dagsins ljós, ökumenn sýndu hvað í þeim bjó í erfiðum aðstæðum. Aðstæður bötnuðu og brautímar urðu sífellt hraðari.

Daniel Ricciardo er þriðji á ráslínu og gæti gert Mercedes mönnum lífið erfitt í keppninni á eftir.Vísir/Getty
Í fyrstu lotu duttu út, Sauber og Manor ökumennirnir og Sainz á Toro Rosso.

Rigningin jókst aftur í annarri lotu, beygja 10 reyndist ökumönnum sérstaklega erfið. Kimi Raikkonen, Hamilton, Sebastian Vettel og margir fleiri snérust þar í annarri lotu.

Í annarri lotu duttu út McLaren og Lotus ökumennirnir og Valtteri Bottas á Williams.

„Þetta eru ekki öruggar aðstæður, það ætti að stöðva tímatökuna,“ sagði Jenson Button eftir aðra lotuna. Þriðju lotu var frestað um 10 mínútur fyrst um sinn. Þirðju lotunni var svo aflýst.

Keppnin verður líklega ræst fyrir aftan öryggisbíl, nema aðstæður batni. Heimsmeistarakeppnin er sprelllifandi með Rosberg á undan Hamilton á ráslínu. Vettel er þó með tíu sæta refsingunni 15. á ráslínu svo hann hefur verk að vinna.

Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 18:30 á eftir á Stöð 2 Sport 3.

Hér fyrir neðan má finna öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.


Tengdar fréttir

Nico Rosberg fljótastur á æfingu

Nico Rosberg á Mercedes var fljótastur á æfingu dagsins fyrir bandaríska kappaksturinn sem fram fer um helgina. Seinni æfingunni var aflýst vegna veðurs.

Svona verður Hamilton heimsmeistari í Texas

Lewis Hamilton ökumaður Mercedes liðsins og ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1 er þegar með níu fingur á titli þessa árs. Hvernig getur Hamilton orðið heimsmeistari í Texas um helgina?

Sebastian Buemi vann í Kína

Sebastian Buemi á Renault vann fyrstu keppni Formúlu E tímabilsins sem fór fram í Peking í morgun. Lucas di Grassi varð annar á Abt Schaeffler Audi og Nick Heidfeld á Mahindra varð þriðji.

Tímatökunni í Texas frestað vegna veðurs

Fellibylurinn Patricia lét finna fyrir sér í Austin í Texas. Rigningin sem fylgdi Patricia gerði það að verkum að ómögulegt var að senda Formúlu 1 bíla út á brautina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×