Erlent

"Ég verð frábært sameiningartákn fyrir þjóðina“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Auðkýfingurinn heldur áfram að stela fyrirsögnum um allan heim.
Auðkýfingurinn heldur áfram að stela fyrirsögnum um allan heim. Vísir/Epa
Donald Trump var samur við sig í viðtali á CNN í dag þegar hann sagðist vera „sameiningartáknið“ sem Bandaríkin þyrftu en hann sækist nú eftir því að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins í kosningunum á næsta ári.

Yfirlýsingu auðkýfingsins má rekja til nýrrar skoðunakönnunar sem gefur til kynna að taugasérfræðingurinn Ben Carson, sem sækist einnig eftir útnefningu flokksins, njóti mests fylgis í Iowa-fylki. Þar fara fyrstu kosningarnar Repúblikanaflokksins fram og hafa oft verið sagðar setja tóninn fyrir kosningarnar í hinum fylkjunum sem á eftir fylgja.

Trump, sem hefur leitt nánast allar skoðanakannanir til þessa, sagði að yrði hann forseti myndi hann ná að sætta ólík sjónarmið á bandaríska þinginu. Allt frá því að repúblikanar náðu þar meirihluta hefur demókratanum Barack Obama Bandaríkjaforseta reynst erfitt að ná mörgum af sínum hugaðarefnum í gegnum þingið.

Í þættinum State of the Union á CNN eyddi Trump miklu púðri í baráttunni milli repúblikana og Hillary Clinton í síðustu viku þegar hún sat fyrir svörum vegna árásarinnar á bandaríska sendiráðið í Benghazi haustið 2012. Clinton var þá utanríkisráðherra og reyndi þingnefnd  í ellefu klukkustundir að komast til botns í meintu skeytingarleysi hennar í málinu þar sem fjórir létu lífið.

„Hatrið milli Repúblikana og Demókrata var ótrúlegt. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði Trump. „Ég mun sameina. Landið [Bandaríkin] er klofið í herðar niður. Barack Obama hefur sundrað landinu. Þetta er beinlínis hatur, hatur segi ég. Ég hef ekki séð neitt þessu líkt.“

Auðkýfingurinn bætti þá við að yrði hann kosinn myndi hann verða „frábært sameiningartákn fyrir þjóðina.“

Gengið verður til kosninga í Iowa þann 1. febrúar næstkomandi.


Tengdar fréttir

Biden býður sig ekki fram

"Þó að ég verði ekki frambjóðandi mun ég ekki þegja,“ sagði Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, í ræðu fyrir utan Hvíta húsið í gær. Í ræðunni tilkynnti hann um að hann myndi ekki leita eftir tilnefningu Demókrataflokksins til að bjóða sig fram sem forseti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×