Körfubolti

Næstum því þrennudagurinn mikli hjá systrunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir þegar þær mættust í Lengjubikarnum.
Helena Sverrisdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir þegar þær mættust í Lengjubikarnum. Vísir/Anton
Laugardagurinn 24. október 2015 var næstum því sögulegur dagur hjá einni fjölskyldu þegar litlu munaði að systurnar Helena og Guðbjörg Sverrisdætur væru báðar með þrennu í Domnino´s deild kvenna.

Helena Sverrisdóttir, spilandi þjálfari Hauka, var með þrennu í 88-74 sigur Haukanna í Keflavík og varð þar með fyrsti leikmaður Domino´s deild kvenna í vetur sem nær þrefaldri tvennu.

Helena var með 17 stig, 17 fráköst og 13 stoðsendingar á þeim 36 mínútum rúmu sem hún spilaði í leiknum.

Guðbjörg Sverrisdóttir, yngri systir hennar, leiddi sitt lið, Val, til sigurs á móti Hamar á sama tíma á Hlíðarenda.

Valur vann leikinn 87-80 og Guðbjörg var með 24 stig, 10 stolna bolta, 8 fráköst og 8 stoðsendingar. Hana vantaði því annaðhvort bara tvö fráköst eða tvær stoðsendingar til að ná þrennunni.

Þetta er annað skiptið sem Guðbjörg er bara tveimur fráköstum frá þrennunni en hún var með 10 stig, 10 stoðsendingar og 8 fráköst í sigri á Keflavík í fyrstu umferðinni.

Helena hefur verið með svaka stig-frákasta tvennur í fyrstu leikjum sínum en hafði mest gefið 8 stoðsendingar fyrir leikinn á laugardaginn.

Helena er með 28,0 stig, 17,0 fráköst,  8,3 stoðsendingar og 4,3 stolna bolta að meðaltali í fyrstu þremur leikjum Hauka í Domino´s deild kvenna á þessu tímabili.

Litla systir er aftur á móti með 15,7 stig, 6,7 fráköst,  7,7 stoðsendingar og 4,0 stolna bolta að meðaltali í fyrstu þremur leikjum Vals í Domino´s deild kvenna á þessu tímabili.

Það má búast við því að þessar öflugu körfuboltasystur verði áfram að gæla við þrennurnar í vetur og hver veit nema að þær nái báðar þrennum á sama deginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×