Enski boltinn

28 ára strákur tekur við liði í Bundesligunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julian Nagelsmann.
Julian Nagelsmann. Vísir/Getty
Julian Nagelsmann mun stýra þýska úrvalsdeildarliðinu TSG 1899 Hoffenheim frá og með næsta tímabili en hann er bara 28 ára gamall.

TSG 1899 Hoffenheim er eflaust þekktast á Íslandi fyrir að vera það lið sem Gylfi Þór Sigurðsson spilaði með og skoraði 9 mörk fyrir tímabilið 2010-11.

Hoffenheim rak Markus Gisdol í gær og hinn 61 árs gamli Hollendingur Huub Stevens mun stýra liðinu út tímabilið.

Hoffenheim situr eins og er í fallsæti (17. sæti af 18 liðum) og svo gæti farið að nýji þjálfari þurfi að byrja með liðið í b-deildinni.

Verði liðið hinsvegar áfram í þýsku Bundesligunni á næsta tímabili þá mun Julian Nagelsmann verða yngsti þjálfari deildarinnar frá upphafi.

„Við gerum okkur grein fyrir því að það er hugrekki að taka þetta skref. Hann er bara svo efnilegur þjálfari að við viljum gefa honum þetta tækifæri," sagði Alexander Rosen, yfirmaður íþróttamála hjá Hoffenheim.

Julian Nagelsmann mun klára tímabilið sem þjálfari 19 ára lið félagsins á meðan hann er hann að öðlast þau þjálfararéttindi sem hann þarf á að halda fyrir starfið hjá aðalliðinu.

Julian Nagelsmann er fæddur 23. júlí 1987 eða rúmu ári eftir að Diego Maradona skoraði með hendi á móti Englendingum á HM í Mexíkó 1986.

Fótboltaferli hans lauk við 22 ára aldur og hann hefur þjálfað yngri lið TSG 1899 Hoffenheim frá 2010.

Nagelsmann fékk að kynnast aðeins starfinu með aðalliðinu þegar hann var aðstoðarþjálfari aðalliðsins tímabilið 2012 til 2013.

Nagelsmann gerði 19 ára lið Hoffenheim að þýskum meisturum árið 2014 og liðið varð síðan í öðru sæti á síðasta tímabili.

Julian NagelsmannVísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×