Erlent

ISIS kennt um árásirnar í Ankara

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
97 eru látnir eftir sprengingarnar í Ankara á laugardaginn.
97 eru látnir eftir sprengingarnar í Ankara á laugardaginn. Vísis/AFP
Ahmed Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands, telur að ISIS beri ábyrgð á sprengjuárásinni á friðarsamkomu í Ankara á laugardaginn þar sem 97 létust og fjölmargir særðust. Rannsókn yfirvalda beinist aðallega að tyrkneskum ISIS-hóp.

Enginn hópur hefur lýst yfir ábyrgð á ódæðunum en að mati yfirvalda í Tyrklandi voru þau framin af tveimur karlmönnum sem sprengdu sjálfa sig í loft upp. Margir þeirra látnu voru meðlimir í HDP-flokknum sem styður baráttu Kúrda fyrir sjálfstæði. 

Rannsóknin beinist fyrst og fremst að stuðningshópi ISIS frá Adiyaman-héraði í suður-Tyrklandi en tegund sprengjuefnanna og skotmark árásanna þykir benda til þess að sá hópur hafi verið að verki.

Lögregluyfirvöld í Tyrklandi segja að árásin sé mjög keimlík þeirri sem átti sér stað í Suruc í Tyrklandi í sumar þar sem 33 stuðningsmenn Kúrda létust. Fjölmargir hafa verið handteknir í rannsókn tyrkneskra yfirvalda en að sögn Davutoglu eru lögregluyfirvöld nálægt því að geta borið kennsl á einn ódæðismannana.

Kúrdar hafa lýst yfir vopnahléi fram að kosningum en Tyrkir hafa hafnað því og héldu áfram loftárásum á bækistöðvar Kúrda á landamærum Tyrklands og Íraks.


Tengdar fréttir

Þúsundir mótmæla árásinni

Stjórnvöld í Tyrklandi telja Íslamska ríkið hafa staðið að árás á útifund í Ankara um helgina. Kúrdar segja ábyrgðina hjá stjórnvöldum. Loftárásum haldið áfram þrátt fyrir einhliða vopnahlé af hálfu Kúrda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×