Handbolti

Litháskur landsliðsmaður til hjálpar nýliðum Víkinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Eysteinsson og Karolis Stropus takast í hendur við undirritun samningsins í Víkinni í dag.
Helgi Eysteinsson og Karolis Stropus takast í hendur við undirritun samningsins í Víkinni í dag. Mynd/Víkingur
Víkingar hefur fengið liðstyrk í Olís-deild karla í handbolta en félagið samdi við Litháann Karolis Stropus um að spila með liðinu á tímabilinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Víkingum.

Karolis er 25 ára gamall, rétthentur, 193 cm á hæð og kemur til Víkings frá litháísku meisturunum Klaipeda Dragunas.  Hann leikur bæði sem skytta og miðjumaður.

Karolis á að baki 24 leiki með A landsliði Litháen auk þess sem hann hefur leikið með öllum yngri landsliðum Litháen.

„Karolis er gríðarlega sterkur alhliða leikmaður sem á eftir að styrkja okkur mikið það sem eftir lifir vetrar.  Hann er sterkur í vörn og sókn og eykur breiddina í liðinu þar sem að hann getur leyst allar stöður fyrir utan.  Ég bind miklar vonir við að hann færi okkur  herslumuninn sem hefur vantað til að fá meira út úr leikjunum í upphafi tímabilsins“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Víkings, í fréttatilkynningu frá Víkingum.

Víkingar eru nýliðar í Olís-deildinni og sitja eins og er í neðsta sæti deildarinnar með 2 stig í 8 leikjum. Víkingsliðið hefur aðeins skorað 21,5 mark að meðaltali í leik og þurfti því augljóslega á hjálp að halda í sóknarleiknum.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að vera kominn til Víkings.  Ég hef fylgst með liðinu og fengið smjörþefinn af íslenskum handbolta undanfarna daga.  Hér mun ég spila í sterkari deild og ég tel að þetta sé sú áskorun sem ég þarf á þessum tímapunkti til að bæta mig sem leikmaður.  Ég hef mikla trú á liðinu og vona að ég geti hjálpað þeim að vinna fleiri leiki á næstu mánuðum“ sagði Karolis Stropus í viðtali í fréttatilkynningunni frá Víkingum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×