Enski boltinn

Merson: Bestu möguleikar Liverpool á Meistaradeildarsæti liggja í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Milner var hvíldur í fyrsta Evrópudeildarleiknum.
James Milner var hvíldur í fyrsta Evrópudeildarleiknum. Vísir/EPA
Paul Merson, knattspyrnusérfræðingur á SkySports og fyrrum leikmaður Arsenal, telur að Liverpool eigi að einbeita sér að Evrópudeildinni á þessu tímabili því þar liggi bestu möguleikar liðsins á því að komast aftur í Meistaradeildina.

Það er líklegt að knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers hvíli einhverja lykilmenn Liverpool í kvöld enda framundan leikur við Everton á sunnudaginn. Sion-liðið er eins og er í 5. sæti svissnesku deildarinnar heilum þrettán stigum á eftir toppliði Basel.

„Liverpool verður að vinna þennan leik," sagði Paul Merson í viðtali á Sky Sports.

„Ég er ekki viss um að Liverpool nái einu af fjórum efstu sætunum í ensku úrvalsdeildinni. Því lengur sem liðið er í Evrópudeildinni því meiri möguleikar eru á því að komast í Meistaradeildina," sagði Merson en það lið sem vinnur Evrópudeildina vinnur sér jafnframt sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

„Ég býst við því að Liverpool vinni þennan leik í kvöld þrátt fyrir að framundan sé þessi risaleikur við Everton á sunnudaginn. Ég spái þessu 3-0 fyrir Liverpool," sagði Merson.

Liverpool gerði 1-1 jafntefli við Bordeaux í fyrsta leik sínum í Evrópudeildinni en þar hvíldi Brendan Rodgers þá James Milner, Nathaniel Clyne, Christian Benteke og Martin Skrtel.

Liverpool vann Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og situr nú í 9. sætinu í deildinni. Það eru hinsvegar bara tvö stig í Arsenal sem er í 4. sætinu.

„Að mínu mati á Liverpool meiri möguleika á því að komast í Meistaradeildina í gegn Evrópudeildina en í gegnum ensku úrvalsdeildina," sagði Merson.

„Það yrði mjög gott að hafa þá leið enn opna í febrúar þegar Liverpool-liðið er kannski komið tólf stigum á eftir í baráttunni um fjórða sætið. Þá væri kannski rétt að fara að hvíla leikmenn í deildarleikjunum og stefna á það að vinna Evrópudeildina," sagði Merson.  

Liverpool tekur á móti svissneska liðinu FC Sion á Anfield í dag og verður leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport. Leikurinn hefst klukkan 19.00.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×