Körfubolti

Haukakonur gerðu út um leikinn í öðrum leikhluta

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Úr leik Hauka í Fyrirtækjabikarnum.
Úr leik Hauka í Fyrirtækjabikarnum. Vísir/Anton
Haukakonur unnu í kvöld 47 stiga sigur á Grindavík í seinni undanúrslitaleik Fyrirtækjabikarsins í körfuknattleik en þær mæta Keflavík í úrslitunum.

Leikurinn fór fram í TM-höllinni í Keflavík en fyrr í kvöld tryggði Keflavík sér sæti í úrslitunum með 80-76 sigri á Val.

Það var heldur minni spenna í seinni leik kvöldsins en Haukakonur leiddu eftir fyrsta leikhluta 30-12 og bættu í forskotið í öðrum leikhluta. Fóru þær inn í hálfleik með 27 stiga forskot í stöðunni 46-19.

Grindavíkurkonum tókst að halda í við Hauka í þriðja leikhluta sem lauk 25-21 fyrir Hauka en þær áttu fá svör í fjórða leikhluta og bættu Haukakonur við forskot sitt fram að lokasekúndum leiksins.

Lauk leiknum með 47 stiga sigri Hauka en hin 17 ára gamla Sylvía Rún Hálfdánardóttir fór á kostum í liði Hauka í leiknum og setti 28 stig úr aðeins 13 skottilranum.

Hitti hún úr öllum 7 skotum sínum innan þriggja stiga línunnar og setti niður 4/6 þriggja stiga skota sinna, 66,67% nýting fyrir utan þriggja stiga línuna ásamt því að setja niður tvö af þremur vítaskotum sínum á 25 mínútum.

Í liði Grindavíkur var það Whitney Michelle sem var atkvæðamest með 13 stig en hún hitti aðeins úr 3 af 16 skotum sínum í leiknum og lauk leik með 19% skotnýtingu. Hitti hún þó úr 7 af 8 vítaskotum sínum í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×