Skoðun

Leysum bráðavandann

Skúli Helgason skrifar
Framúrskarandi tónlistarlíf á Íslandi byggir ekki síst á öflugu starfi tónlistarskólanna. Því er mikið áhyggjuefni að rekstur nokkurra rótgróinna tónlistarskóla í borginni er afar tvísýnn og hefur nú einn skóli þegar sagt upp öllum sínum starfsmönnum. Í mínum huga er eina raunhæfa lausnin sú að ríki og Reykjavíkurborg með atbeina Sambands íslenskra sveitarfélaga taki höndum saman um að leysa bráðavanda tónlistarskólanna og setjist svo niður með þeim og móti sjálfbært skipulag tónlistarnáms til framtíðar.

Slíkt samkomulag um bráðavandann var í burðarliðnum í vor og fól í sér tillögu í tólf liðum þar sem Reykjavíkurborg var tilbúin að leggja fram 90 milljónir, 30 milljónir áttu að koma úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með lagabreytingu sem Alþingi samþykkti 30. júní sl. og svo átti ríkið að leggja fram 60 milljónir. Fulltrúar mennta- og menningarmálaráðherra og fjármálaráðherra áttu aðild að þeirri vinnu sem fæddi af sér samkomulagsdrögin. Borgaryfirvöld unnu minnisblað um málið um miðjan júní sem átti að leggja fyrir ríkisstjórn í sumar.

Því miður hefur ríkisstjórnin ekki staðið við sinn hluta, án þess að skýringar hafi verið gefnar og málið er því í uppnámi. Stjórnir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa ályktað að gerður verði nýr samningur milli ríkis og sveitarfélaga á sama grunni og lagður var 2011 þar sem ríkið fjármagnaði framhaldsnám í hljóðfæraleik og mið- og framhaldsnám í söng.

Reykjavíkurborg er tilbúin að leggja fram sinn hluta strax ef ríkið kemur á móti og það má engan tíma missa ef ekki á illa að fara fyrir þeim tónlistarskólum sem verst standa. Nú er mikilvægt að leggja til hliðar í bili áralanga deilu um ábyrgðarskil ríkis og sveitarfélaga enda er sú deila nú til meðferðar í dómskerfinu. Ríkið verður hins vegar að taka þátt í því með sveitarfélögunum að leysa bráðavandann svo tryggja megi áframhaldandi öflugt tónlistarnám í borginni til framtíðar.

Stjórnvöld verða að sýna ábyrgð gagnvart þeim nemendum, foreldrum og kennurum sem treysta á farsæla lausn málsins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×