Fótbolti

Barcelona sækir um að fá að skrá Arda Turan í leikmannahópinn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Messi og Arda Turan í góðum gír.
Messi og Arda Turan í góðum gír. Vísir/Getty
Spænsku meistararnir í Barcelona sóttu í dag um að fá að skrá tyrkneska landsliðsmanninn Arda Turan, í leikmannahóp liðsins í spænsku úrvalsdeildinni eftir að Rafinha sleit krossband á dögunum.

Barcelona er þessa dagana að taka út félagsskiptabann og gat fyrir vikið ekki skráð nýja leikmenn í leikmannahóp sinn í haust. Þrátt fyrir það gekk félagið frá kaupunum á Turan frá Atletico Madrid og Aleix Vidal frá Sevilla en gat ekki skráð þá fyrr en í janúarglugganum.

Hefur Barcelona óskað eftir því að fá að skrá Turan í leikmannahópinn eftir að brasilíski landsliðsmaðurinn Rafinha sleit krossband á dögunum í leik Barcelona og Roma. Verður Rafinha frá út árið en hann hafði farið vel af stað í liði Börsunga.

Bentu forráðamenn Barcelona á það að félagsskiptabannið sem Barcelona var sett í lauk þann 31. ágúst síðastliðinn en í spænsku úrvalsdeildinni eru reglur um að félög geti bætt við leikmönnum við leikmannalistann ef aðrir leikmenn liðsins meiðast alvarlega og verða frá í fimm mánuði eða lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×