Handbolti

Komast Akureyringar á blað í kvöld?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tomas Olason, markvörður Akureyrar.
Tomas Olason, markvörður Akureyrar. vísir/stefán
Fjórða umferð Olís-deildar karla í handbolta hefst í kvöld með fjórum leikjum, en síðasti leikurinn; viðureign Gróttu og ÍBV, fer fram á Seltjarnarnesi á morgun.

Fyrst verður flautað til leiks í KA-heimilinu á Akureyri í kvöld þar sem norðanmenn fá Íslandsmeistara Hauka í heimsókn.

Haukar eru með fjögur stig eftir þrjá leiki; búnir að vinna bæði Víking og Val örugglega en þurftu að sætta sig við tap gegn ÍBV á heimavelli síðastliðinn sunnudag.

Akureyringar eru aftur á móti á botni deildarinnar, án stiga eftir þrjár umferðir, en liðið er búið að tapa útileikjum gegn ÍR og Aftureldingu og heimaleik gegn Val.

Akureyrarliðið spilar nú í KA-heimilinu sem það vonar að hjálpi til við að ná góðum úrslitum, en liðið þarf á öllum gömlu góðu KA-töfrunum að halda í kvöld til að leggja meistarana að velli.

Topplið ÍR, sem virðist ekki sakna Björgvins Hólmgeirssonar neitt, fær nýliða Víkings í heimsókn. ÍR-ingar eru búnir að vinna alla þrjá leiki sína, en Víkingar komust á blað með sigri í nýliðaslagnum gegn Gróttu í síðustu umferð.

Í Safamýri verður Reykjavíkurslagur Fram og Vals, en bæði lið eru með fjögur stig eftir tvo leiki. Framarar hafa spilað vel og eru búnir að vinna Víking og ÍBV, en Valur lagði ÍBV og Akureyri.

Loks eigast við Afturelding og FH, en FH-ingar eru búnir að tapa tveimur leikjum í röð eftir sigur á Fram í fyrstu umferðinni. FH-ingar fengu þokkalegan skell gegn ÍR í síðustu umferð og vilja vafalítið bæta upp fyrir það.

Leikir kvöldsins:

19.00 Akureyri - Haukar, KA-heimilinu

19.30 ÍR - Víkingur, Austurbergi

19.30 Fram - Valur, Framhúsinu

19.30 Afturelding - FH, N1-höllinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×