Fótbolti

Hvorki Benteke né Milner með Liverpool í dag

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rodgers eftir leikinn gegn Manchester United um helgina.
Rodgers eftir leikinn gegn Manchester United um helgina. Vísir/Getty
Samkvæmt staðarblaðinu í Liverpool ákvað Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, að skilja marga lykilleikmenn liðsins eftir í Liverpool fyrir leik liðsins gegn Bordeaux í Evrópudeildinni í kvöld.

Liverpool ferðaðist til Frakklands á dögunum og ákvað Rodgers að skilja eftir Christian Benteke, James Milner, Nathaniel Clyne, Dejan Lovren og Martin Skrtel en þeir hafa allir leikið alla leiki Liverpool á þessu tímabili.

Var þessi ákvörðun tekin með annað augað á leik Liverpool gegn Norwich um helgina en Rodgers segist ekki vera að gera lítið úr þessari keppni.

„Ég er með sömu áherslur og á mínu fyrsta tímabili hjá Liverpool þegar við vorum í þessari keppni. Leikmenn sem hafa fengið færri mínútur í bland við unga leikmenn. Við lentum í efsta sæti riðilsins það árið og það er markmiðið að endurtaka leikinn í ár.“

Þá staðfesti Rodgers að Divock Origi og Mamadou Sakho myndu leika fyrstu leiki sína í byrjunarliði Liverpool á þessu tímabili.

Leikur Bordeaux og Liverpool verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Sport HD í dag en flautað verður til leiks í Frakklandi klukkan 17.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×