Handbolti

Unnu þriðja leikinn í röð á Heimsmeistaramóti U-19

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Grétar Ari, markvörður íslenska liðsins, hefur vakið athygli á mótinu.
Grétar Ari, markvörður íslenska liðsins, hefur vakið athygli á mótinu. Mynd/ihf.info
Íslenska U-19 árs landsliðið í handknattleik sigraði þriðja leik sinn í röð á Heimsmeistaramótinu sem fer fram í Rússlandi þessa dagana. Ísland lagði Egypta í morgun 31-29 eftir að hafa sigrað Þjóðverja og Spánverja.

Ísland hafði frumkvæðið í leiknum allt frá upphafsflauti en eftir 10 mínútna leik var íslenska liðið komið með 7 marka forskot í stöðunni 9-2. Egypska liðinu tókst að vinna sig aftur inn í leikinn í fyrri hálfleik en staðan var 18-12 fyrir Íslandi í hálfleik.

Íslensku strákunum tókst að halda sex marka forskoti allt þar til tíu mínutur voru til leiksloka en þá fóru Egyptar á saxa á forskotið. Fór forskotið minnst niður í tvö mörk en leiknum lauk með 31-29 sigri íslenska liðsins.

Óðinn Ríkharðsson var atkvæðamestur í liði Íslands í dag með átta mörk en Ísland leikur gegn Norðmönnum á morgun og lokaleik riðilsins gegn Venesúela á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×