Enski boltinn

Chelsea fær Rahman

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rahman í leik með Augsburg.
Rahman í leik með Augsburg. vísir/getty
Augsburg staðfesti í dag á heimasíðu sinni að Chelsea hefði fest kaup á vinstri bakverðinum Baba Rahman frá félaginu, en kaupverðið er ekki gefið upp.

Í yfirlýsingu frá þýska klúbbnum segir að Rahman muni yfirgefa Þýskaland fyrir óuppgefna upphæð, en heimildir Sky Sports herma að kaupverðið hljóði uppá 20 milljónir punda.

Rahman er landsliðsmaður Gana, en honum er áætlað að fylla skarð Filipe Luis, sem fór frá Chelsea til Atletico Madrid, fyrr í þessum mánuði.

„Ég vil þakka þjálfurunum og stuðningsmönnum fyrir síðasta ár. Þetta er tækifæri til þess að spila í toppklúbbi á Englandi þrátt fyrir að ég hafi ætlað að spila lengur fyrir Augsburg," sagði Rahman við heimasíðu Augsburg.

Rahman kom til Augsburg frá Greuther Fürth í fyrra, en hann á ellefu leiki að baki fyrir A-landslið Gana og sjö fyrir U20 ára lið Gana.

„Baba Rahman hefur bætt sig mjög mikið hjá okkur og þetta er ekki bara viðurkenning fyrir hann, heldur allt starfið okkar ef risi eins og Chelsea er áhugasamt um okkar leikmann. Við óskum honum góðs gengis hjá Chelsea," sagði Stefan Reuter, stjóri Augsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×