Handbolti

Björgvin á leið til Dubaí: Í versta falli langt sumarfrí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin var valinn besti leikmaður Olís-deildar karla eftir síðasta tímabil.
Björgvin var valinn besti leikmaður Olís-deildar karla eftir síðasta tímabil. vísir/andri marinó
Björgvin Hólmgeirsson er að öllum líkindum á leið til Dúbaí þar sem hann mun leika með handboltaliði Al Wasl SC.

„Það er líklegt að þetta gangi eftir en það er ekki búið að staðfesta neitt,“ sagði Björgvin í samtali við Vísi nú rétt í þessu. Hann er með samningstilboð í höndunum frá félaginu og gæti skrifað undir samning við það um helgina.

„Ef þetta gengur upp þá verður þetta ævintýramennska en ekki atvinnumennska hjá okkur fjölskyldunni.

„Ég er tilbúinn að prófa þetta í tíu mánuði,“ bætti Björgvin við en hann var markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar á síðasta tímabili þegar hann skoraði 168 mörk fyrir uppeldisfélagið ÍR. Í lok tímabilsins var hann svo valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar.

Björgvin var í viðræðum við sænska liðið Skövde en hann kveðst hafa hafnað því í gær. Hann ræddi einnig við rúmenska liðið Dinamo Búkarest.

„Það er enginn peningur til í þessu lengur svo maður nennir ekki að standa í einhverju harki. Frekar vill maður taka ævintýramennskuna á þetta og lifa lífinu. Í versta falli verður þetta langt sumarfrí,“ sagði Björgvin að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×