Fótbolti

Ólíkt gengi ensku liðanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pellé fagnar marki sínu gegn Vitesse í kvöld.
Pellé fagnar marki sínu gegn Vitesse í kvöld. vísir/getty
Tvö ensk úrvalsdeildarlið voru á ferðinni í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Southampton átti ekki miklum vandræðum með að leggja Vitesse Arnheim að velli á St. Mary's Stadium.

Graziano Pellé kom Dýrlingunum yfir á 36. mínútu og í uppbótartíma fyrri hálfleiks bætti Dusan Tadic við marki úr vítaspyrnu.

Það var svo Shane Long sem gulltryggði sigur Southampton þegar hann skoraði þriðja markið sex mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 3-0, Southampton í vil.

Það gekk ekki jafn vel hjá West Ham United sem missti niður tveggja marka forystu gegn Astra frá Rúmeníu á heimavelli.

West Ham, sem átti í stökustu vandræðum með Birkirkara frá Möltu í síðustu umferð, kom yfir með marki Enners Valencia á 23. mínútu. Mauro Zárate kom Hömrunum í 2-0 á 51. mínútu og staðan þeirra því orðin góð.

En átta mínútum síðar var James Collins rekinn af velli og Rúmenarnir gengu á lagið. Rick Boldrin minnkaði muninn á 71. mínútu og 11 mínútum síðar skoraði Angelo Ogbonna sjálfsmark og niðurstaðan því 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×