Enski boltinn

Mótherji Stjörnunnar í sex leikja bann fyrir að bíta leikmann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nadir Ciftci verður ekki með í byrjun tímabilsins hjá nýja liðinu sínu.
Nadir Ciftci verður ekki með í byrjun tímabilsins hjá nýja liðinu sínu. vísir/getty
Tyrkneski framherjinn Nadir Ciftci, leikmaður Celtic í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta, missir af fyrstu sex leikjum deildarinnar þegar hún hefst í ágúst.

Framherjinn var í dag úrskurðaður í sex leikja bann fyrir að bíta Jim McAlister, leikmann Dundee, þegar hann var leikmaður Dundee United á síðustu leiktíð. Atvikið átti sér stað í Dundee-slagnum.

Hann kom til Celtic frá Dundee United fyrr í mánuðinum, en skosku meistararnir borguðu fyrir hann 1,5 milljón punda.

Ciftci var í byrjunarliði Celtic í síðustu viku þegar liðið vann Stjörnuna, 2-0, í fyrri leik liðanna í annarri umferð forkeppni Meistaradeildarinanr.

Hann verður svo væntanlega aftur í byrjunarliðinu á miðvikudagskvöldið þegar skoska stórveldið mætir á Samsung-völlinn í Garðabæinn. Bannið gildir aðeins í skoska fótboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×