Fótbolti

Ólafur Karl: Skotarnir eru hrokafullir og dónalegir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Karl fagnar marki sínu á sjöundu mínútu í kvöld.
Ólafur Karl fagnar marki sínu á sjöundu mínútu í kvöld. vísir/andri marinó
Ólafur Karl Finsen, framherji Stjörnunnar, var vægast sagt ósáttur við framkomu Skotanna, bæði leikmanna og blaðamanna, í kringum leikinn gegn Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.

Celtic vann seinni leik liðanna í kvöld, 4-1, og einvígið samanlagt, 6-1, eftir 2-0 sigur í Skotlandi í fyrri leiknum.

„Mér fannst þeir hrokafullir og dónalegir,“ sagði svekktur Ólafur Karl Finsen í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leikinn.

Skoskir blaðamenn gerðu lítið úr Samsung-vellinum í skrifum sínum fyrir leikinn og höfðu meiri áhuga á gervigrasinu heldur en leiknum sjálfum.

„Það er ekki okkur að kenna að við séum í þessari stöðu. Við erum bara að gera okkar besta,“ sagði Ólafur Karl eins einlægur og hann verður.

„Við mættum liðum eins og Inter í fyrra sem kom fram við okkur af miklu meiri virðingu. Maður fann bara hrokann leka af þeim, bæði í því sem skrifað var um okkur og sagt.“

„Þeir hefðu alveg getað verið jákvæðir og skemmtilegir. En ég er bara að segja það sem mér finnst,“ sagði Ólafur Karl Finsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×