Handbolti

Anna Úrsúla og Finnur Ingi semja við Gróttu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anna Úrsúla og Finnur Ingi handsala samninginn við Arnar Þorkelsson, formann Handknattleiksdeildar Gróttu.
Anna Úrsúla og Finnur Ingi handsala samninginn við Arnar Þorkelsson, formann Handknattleiksdeildar Gróttu. mynd/grótta
Handboltaparið Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Finnur Ingi Stefánsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild Gróttu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Anna Úrsúla gekk aftur til liðs við Gróttu fyrir síðasta tímabil eftir nokkura ára dvöl hjá Val og var í lykilhlutverki í liði Seltirninga sem varð Íslands-, deildar- og bikarmeistari í vetur. Anna var valin besti varnarmaður Olís-deildarinnar á síðasta tímabili og var auk þess í liði ársins.

Auk þess að leika með Gróttu verður Anna aðstoðarþjálfari hjá liðinu ásamt Guðmundi Árna Sigfússyni. Kára Garðarsson verður áfram aðalþjálfari liðsins.

Finnur Ingi snýr til baka á Nesið eftir nokkura ára dvöl hjá Val. Finnur, sem leikur í hægra horninu, lék síðast með Gróttu í efstu deild tímabilið 2009-10. Þá skoraði hann 46 mörk í 10 leikjum.

Finnur skoraði 75 mörk fyrir Val á síðasta tímabili en liðið varð deildarmeistari og féll svo úr leik í undanúrslitum úrslitakeppninnar fyrir Haukum.

Grótta er nýliði í Olís-deild karla en liðið vann 1. deildina með þónokkrum yfirburðum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×